Kostir og gallar við Giljaskóla

Eva María
Eva María

Giljaskóli er fínn skóli. Þó er ýmislegt þar sem má bæta. Auðvitað er það þannig að allir skólar, allir vinnustaðir og flest allt í lífinu hefur bæði kosti og galla því að enginn er fullkominn. Ekkert er fullkomið. Ég ætla að segja frá því sem er gott við skólann og hvað ekki.

Gallarnir við Giljaskóla eru nokkrir. Mér hefur alltaf fundist eitt leiðinlegt við skólann en það er skólasundið. Mér finnst ekki endilega það hræðilegt að þurfa að synda heldur hvað sundlaugin er köld. Þess vegna væri sniðugt að byrja strax að synda í stað þess að byrja í pottinum og þá væri hægt að vera lengur þar í lokin. Margir kvarta yfir þungum töskum á unglingastigi því það eru engir skápar og er það eitthvað sem þarf að laga. Þetta er ekki gott og fer illa með mann. Maður er oft að drepast í öxlunum eftir skóladaginn. Ég sjálf er t.d. komin með vöðvabólgu í háls og axlir og stafar það að miklu leyti af of þungum töskum. Í skólanum er maturinn of dýr ef þú ert ekki í annaráskrift og veit ég um skóla þar sem maturinn er ódýrari. Sumum fullorðnum finnst að tungumálakennslu megi bæta og að vinnan snúist allt of mikið um það að vera í bókum. Maður lærir mikið af því að bæði tala og hlusta á tungumálið. Þannig er t.d. hægt að horfa á þætti og myndir á tungumálinu til að læra meira. Þetta er svolítið gert í dönsku en ekki mikið í ensku. En þó hefur það aðeins verið að breytast upp á síðkastið sem er jákvætt. Ég talaði við einn nemanda sem kvartaði yfir því að ekki mætti nota lyftuna. Ég held að það myndi aldrei ganga upp því það eru svo margir nemendur en bara ein lyfta. Mér finnst þetta eiginlega bara leti og að ekki þurfi að breyta því.

Það eru líka margir kostir við skólann. Mög gott er að hafa Dimmuborgir en þangað getum við farið í frímínútum og eyðum og kemur það sér mjög vel.  Ekki allir skólar hafa þessa aðstöðu. Sniðugt er að hafa snúða á föstudögum því bæði er það tilbreyting frá venjulega nestinu og 10. bekkur fær pening út úr því. Einnig er hægt að fá hafragraut á morgnana og kemur það sér vel ef þú gleymir nesti. Stundum eru föstudagarnir öðruvísi og einnig eru uppbrotsdagar og er það mjög jákvætt þó að auðvitað séu dagarnir misskemmtilegir. Tvisvar í viku eru vinnutímar og minnkar það heimanámið. Foreldrarnir kunna ekki allt sem við erum að læra og þá er hægt að fá hjálp frá kennurum í vinnutímum. Núna þegar íþróttahúsið er komið sparar það tíma þegar þú þarft ekki að ganga eða fara í rútu í íþróttir og er þetta mjög fín aðstaða. Stelpurnar kvörtuðu jafnan mikið yfir litlum tíma eftir íþróttir til að græja sig en það er búið að laga það.

Að lokum vil ég segja að það sem mér finnst gera skólann skemmtilegri er þegar kennslan er fjölbreytt og þegar það er gert eitthvað annað til tilbreytingar. Það sem mér finnst hinsvegar að þurfi að byrja á að laga er að kaupa skápa. Það eru bæði kostir og gallar við skólann og er því ekkert annað að gera en að halda áfram að gera skólann betri!!!

Eva María Aradóttir 9.SAB

Giljaskóli