Kostir Giljaskóla

Giljaskóli verður sautján ára á þessu ári en starfsemi hans hófst í leikskólanum Kiðagili árið 1996. Giljaskóli er góður skóli. Starfsmenn eru mjög fínir, þeir eru áhugasamir og vilja endilega gera eins mikið og þeir geta til að hjálpa nemendum sínum, hvort sem það er við skólaverkefni eða ekki. Þetta er auðvitað frábært og svona á þetta að vera. Samband kennara og nemenda er almennt mjög gott. En ef nemendur haga sér ekki vel í tíma og trufla hina þá getur kennarinn sent viðkomandi í Hegðunarverið. Í Hegðunarverinu vinna nemendur í sömu fögum og þeim var ætlað þennan dag, í umsjón kennara.

Skólinn hefur marga aðra kosti eins og fleiri skólar hér á Akureyri en einn af þeim eru Stuttmyndadagar. Í janúar fá nemendur verkefni í íslensku sem felst í því að skrifa handrit að stuttmynd. Nemendur geta unnið verkefnið einir eða í litlum hóp. Þeir skila handritinu fullkláruðu til kennara og svo eru valin nokkur bestu handritin sem eru svo gerð að stuttmyndum með hjálp kennara. Stuttmyndadagar standa yfir í þrjá daga og finnst mér þeir mjög skemmtilegir og góð tilbreyting fyrir nemendur. Í flestum skólum eru haldnar árshátíðir með leikritum. Mér finnst Stuttmyndadagar betri en leikrit að því leyti að þá geta nemendur fengið mörg tækifæri til að fara með eitt atriði. Ef mistök eiga sér stað í miðju leikriti getur það leitt til þess að viðkomandi aðili fari mjög hjá sér og honum jafnvel strítt á því. Á Stuttmyndadögum er líka skreytingarhópur fyrir þá sem vilja eða treysta sér ekki til að koma fram. Á stundaskrá nemenda á unglingastigi er stafurinn v fyrir framan heitið á tímunum sem þeir fara í á föstudögum. Þetta v stendur fyrir vinnutími. Þá er einn föstudagur öðruvísi á u.þ.b. eins til tveggja mánaða fresti fyrir alla nemendur á unglingastigi. Þessa föstudaga eru til dæmis myndaðir hópar af nemendum sem eiga að leysa einhver ákveðin verkefni. Verkefnin sameina öll fög unglingastigsins svo sem íslensku, dönsku, samfélagsfræði og fleiri fög.

Í stuttu máli finnst mér Giljaskóli afskaplega góður skóli og hef ég því varla neitt út á hann að setja. Skólinn stendur sig að mínu mati vel í aga- og eineltismálum, tilbreytingum á námsefni og námsaðferðum og skólinn er fullur af góðu fólki.

Kristjana Ýr Þórðardóttir
10. IDS