Klámvæðingin stór hluti af daglegu lífi

Nektarmyndir, klámvæðing og sjálfsmynd unglinga. Mér persónulega finnst þessi þrjú atriði stórt vandamál hjá unglingum í dag.

Nektarmyndir hjá unglingum á Íslandi í dag eru mjög algengar hjá bæði strákum og stelpum. Það er staðreynd. Margir, og þá sérstaklega af eldri kynslóðinni, halda að það séu aðeins stelpur sem  taka og senda af sér nektarmyndir. En strákar eiga alveg jafnmikinn þátt í því. Þeir gera bara minna mál úr því en stelpur. Hins vegar er held ég að meira sé um að strákar dreifi myndunum og skiptist á þeim. 
Ef einstaklingur, hvort sem það er strákur eða stelpa, sendir nektarmynd af sér til einhvers sem hann treystir er það þeirra hvort þeir treysti manneskjunni fyrir því eða ekki. Ef einstaklingur sendir nektarmynd af sér til einhvers sem hann/hún treystir mjög vel en viðtakandinn brýtur traustið og sýnir eða sendir myndina áfram, hvort er það á ábyrgð einstaklingsins sem sendi myndina eða þess sem fékk myndina og dreifði henni? Þetta er spurning sem við veltum fyrir okkur en finnum í rauninni aldrei rétt svar við. Það er persónubundin skoðun hvað okkur finnst. Forritið snapchat er myndaforrit sem er notað í snjallsímum. Það virkar þannig að þú sendir myndir eða myndbönd og getur ráðið hvað viðtakandinn sér myndina lengi, eina til tíu sekúndur. Efir þessar fáu sekúndur hverfur myndin og þú getur aldrei séð hana aftur. En þú getur tekið screenshot á símann þinn (eða skjámynd) og þá vistast myndin í símann þinn. Einning eru komin fullt að forritum sem þú getur vistað myndina og þú átt hana. Snapchat forritið er algengasta leiðin til að senda frá sér og fá nektarmyndir. Maður hugsar oft um hvað veldur þessu og fyrsta hugmynd mín er klámvæðing. Klámvæðingin er orðin alltof stór hluti af daglegu lífi hjá bæði unglingum og öðrum nú til dags. Auglýsingar, bíómyndir og allt þetta sem tengist klámvæðingunni er búið að smeygja sér einhvern veginn inn í daglegt líf ungs fólks, þó svo að þetta sé gjörólíkt raunveruleikanum. Við áttum okkur varla lengur á því hvað er klámvæðing og hvað ekki. Klámvæðing og klámið sjálft gefur unglingum svo ranga mynd af hvernig raunveruleikinn er. Öll þessi útlitsdýrkun hefur áhrif á sjálfsmynd ungs fólks og það held ég að tengist þessu mjög mikið. Á léleg sjálfsmynd einhvern þátt í að unglingar virða ekki sinn eigin líkama? Eins og Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur skrifaði um í grein á netsíðunni www.persona.is þá förum við oft að reyna að sanna okkur á einn eða annan hátt og vitum oft ekki hvað við eigum að gera ef sjálfsmynd okkar er ekki góð.
Ég talaði við krakka í 8., 9. og 10. bekk um klámvæðingu og nektarmyndir og einnig sprði ég þau aðeins um sjálfsmynd. Þegar ég byrjaði á þeim yngstu, höfðu þau ekki hugmynd um hvað klámvæðing var en vissu alveg hvað klám var. Mér finnst að krakkar ættu frekar að hafa meira vit á klámvæðingu en kláminu sjálfu.  Eldri krakkarnir vissu reyndar hvað klámvæðingin var. Allir voru sammála um að það væri of auðvelt að finna klám á netinu. Ég talaði líka við tvo af kennurunum mínum, sem sagt fullorðna einstaklinga, til að sjá hvort viðhorfið væri öðruvísi hjá þeim en krökkunum. Bæði unglingum og fullorðnum fannst klám yfir höfuð vera neikvætt orð. Þegar ég spurði krakkana hvort þeir sjálfir myndu horfa á klám kom svarið eins og maður bjóst við. Stelpur neituðu en strákarnir játuðu. Samt fannst bæði strákum og stelpum klám gefa unglingum ranga hugmynd af eðlilegu kynlífi.  Einn sagði mér að hann hefði aldrei skilið hvað fólki fyndist spennandi við kynlíf annarra. Honum hefði aldrei fundist það sjálfum. Þegar ég fór að tala um nektarmyndir og snapchat fannst öllum fáránlegt hvernig forritið er notað og bara yfir höfuð myndirnar sjálfar. Ég spurði alla hvort þeim fyndist meira vera um að stelpur eða strákar væru að senda nektarmyndir. Flestir svöruðu stelpur en örfáir að það væru bæði stelpur og strákar. Mér fannst allir vera voðalega óvissir um þetta mál. Mörgum fannst einnig að sjálfsmyndin hefði áhrif á þetta. Góður punktur sem kom frá kennara mínum: „Þú getur aldrei treyst neinum fyrir þínum eigin líkama.“ Mér finnst mikið til í þessu þar sem það er akkurat það sem er að gerast í sambandi við nektarmyndir. Sjálfsmynd ungs fólks er í heildina ekki nógu góð, allir voru sammála um það. Við töluðum líka um útlitsdýrkunina og hvað hún er orðin alltof mikil. Bæði í klámvæðingu og daglegu lífi. Ég fór á fyrirlestur í vetur þar sem einn fyrirlesarinn sagði; „það er eins og það sé búið að hanna svona piparkökuformskarla fyrir okkur í útliti og allir reyna einhvern veginn að fitta inn í það og lifa eftir þeim væntingum.“ Þetta er nefnilega alveg satt. Allt þetta hefur svo mikil áhrif á okkur. Allir eru einhvern veginn að lifa undir annars fólks væntingum.  Þess vegna reynum við okkar besta til að líta út eins og annað fólk vill að við gerum. Reynum eins og við getum að þóknast öðrum með alls konar vitleysu.  Og það er einmitt það sem er að gerast með okkur unga fólkið í sambandi við nektarmyndir. Við erum að reyna að þóknast öðrum. Við þurfum að læra að virða okkar líkama og okkur sjálf og byggja upp sjálfsmynd okkar í leiðinni.
Við eigum það til að treysta of fljótt og trúa of mikið. Treystum og trúum meira á okkur sjálf og hættum að reyna að þóknast öðrum í kringum okkur.

Tinna Rún Benediktsdóttir 10. JAB

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.