Kennarar

Ég byrjaði í Giljaskóla í september þegar ég var í 2. bekk árið 2005. Bergþóra kennari tók á móti okkur systrum og sýndi okkur skólann. Ég eignaðist strax vinkonu og var ánægð. Á hverju ári hefur komið upp sú staða að ég fæ nýjan umsjónarkennara. Ég er búin að hafa góða kennara, skemmtilegan kennara, leiðinlegan kennara og líka frábæran kennara. Mér finnst skipta máli hvernig kennarinn er. Ef hann er mjög skemmtilegur og sanngjarn, þá legg ég mig meira fram hjá honum heldur en ég myndi nokkurn tímann gera hjá leiðinlegum kennara. Ég hef líka miklu meiri áhuga á efninu hjá kennara sem mér þykir skemmtilegur því að mér finnst hann gera efnið sem fjallað er um hverju sinni mikið áhugaverðara. Það eru líka að sjálfsögðu til leiðinlegir kennarar, því miður. En sem betur fer er enginn leiðinlegur að kenna mér í dag og er almennt mjög lítið um leiðinlega kennara í Giljaskóla að mínu mati. Ef kennarinn er leiðinlegur þá oft á tíðum legg ég mig ekki fram við að reyna að læra efnið og mér finnst allt sem  sá hinn sami segir ömurlega óspennandi. Mér finnst mjög mikilvægt líka að ná tengslum við kennarann og þá sérstaklega umsjónarkennarann. Mér finnst þægilegt að geta talað við kennarann minn til dæmis ef það er eitthvað að hjá mér, ef ég veit um einhvern sem er verið að leggja í einelti eða hvaðeina. Þá vil ég að þeir sýni skilning og séu traustir því ef þú átt ekki skilningsríkan og traustan kennara getur þér oft á tíðum liðið mjög illa í skólanum og ekkert er gert í því. Þótt að ég skrifi hér að ég vilji hafa kennara skilningsríka, skemmtilega og trausta þá að sjálfsögðu þurfa þeir líka að vera strangir og halda aga í bekknum því annars fer jú allt úr böndunum. Ekki er skemmtilegt að vera í bekk þar sem alltaf er allt brjálað öllum stundum. Mér finnst skemmtilegast að vera í tímum sem eru ekki bóklegir eins og íþróttum. Þótt mér finnist skemmtilegast í þeim greinum þýðir það samt alls ekki að mér finnist kennararnir þar skemmtilegastir. Þetta er bara eitthvað sem ég hef áhuga á. Ég myndi frekar kjósa að vera í íslensku allan daginn með skemmtilegan kennara heldur en að vera í til dæmis íþróttum allan daginn, sem er uppáhalds áhugamálið mitt, með hundleiðinlegan kennara.

Eins og ég sagði áður þá eru kennarar misjafnir eins og þeir eru margir! Þrátt fyrir það þá veit ég að allir reyna sitt besta og eru því frábærir fyrir það.

Selma Líf Þórólfsdóttir 9.BIS