Jákvæðni er málið

Ég hef verið í Giljaskóla alla mína skólagöngu. Þessi skóli er svo sem ágætur og margir ljósir punktar. Til dæmis erum við með okkar eigið íþróttahús og margir fínir kennarar eru í Giljaskóla. En það sem gæti orðið það besta við þennan skóla og mætti klárlega bæta er jákvæðni.

Mörgum nemendum finnst leiðinlegt í skólanum eða hafa allavegana farið í gegnum svoleiðis tímabil. En það þarf alls ekkert að vera þannig. Bara það að bjóða starfsfólki skólans góðan daginn getur gert daginn manns og starfsfólksins betri. Til dæmis þegar Ragna enskukennari segist vera pirruð eða að við tökum eftir því að hún er ekki í góðu skapi þá þarf ekki annað en að segja henni hversu vel hún lítur út þann daginn og þá verður tíminn helmingi skemmtilegri. Mér finnst líka að margir ættu að taka Birnu til fyrirmyndar.Hún er alltaf í góðu skapi og býður öllum góðan daginn þegar maður labbar framhjá henni. Ef  maður er jákvæður og hefur gaman að því sem maður er að gera er líka líklegra að maður nái betri árangri, alveg eins í íþróttum og í skóla. Mér finnst það líka vera hlutverk kennarans að reyna að ná upp jákvæðni og góðri stemningu í tímum hjá sér. Einnig er ég með hugmynd fyrir kennara skólans. Í staðinn fyrir að vinna alltaf í bókum og gera eitthvað sem er ekkert alltaf skemmtilegt, að brjóta tímann upp á svona tveggja vikna fresti. Til dæmis að fara í leiki eða horfa á einhvern þátt, fara kannski út í fótbolta sem gerist því miður bara aldrei nú til dags. Til dæmis í dönsku og ensku er langskemmtilegast að horfa á myndir og ég held að nemendur læri mest á því. Þeir fá líka kannski aðeins meiri áhuga á námsgreininni.

Þannig að mín skoðun er sú að skólinn gæti orðið töluvert skemmtilegri bara með aðeins meiri jákvæðni. Að hrósa hvert öðru getur gert daginn hjá öllum betri og þá verða allir glaðari. Þannig viljum við hafa það.

 

Bjarni Aðalsteinsson 10. KJ