iPad í stað skólabóka

Ég er með tillögu. Hvað með að nota iPad í stað skólabóka? Fyrst ætla ég samt að koma með smá kynningu fyrir þá sem ekki vita hvað iPad er. IPad er spjaldtölva með snertiskjá sem er tiltölulega nýkomin á markaðinn. Þú getur hlaðið niður helling af alls konar sniðugu efni fyrir krakkana. Þetta er rosalega sniðugt tæki sem hentar ágætlega í skóla fyrir elstu nemendurna.

Þá er ég komin að aðalumræðuefninu sem er spurningin; af hverju iPad í stað skólabóka? Ástæðan er sú að töskur nemenda í 8.-10. bekk eru alltof þungar. Stór hluti grunnskólabarna er með verki í baki og öxlum vegna þess hve töskurnar eru orðnar þungar. Ég hef sjálf reynslu af þessu. Hugmyndin með iPad er sú að þú getir hlaðið niður öllum bókunum sem þú ert með í skólanum og haft þær í iPadinum. Það eina sem þú þarft að taka með þér í skólann er iPad og smá nesti. Ekki aðeins léttist taskan heldur verður mikið skemmtilegra að læra og nemendur sýna náminu meiri áhuga. Þar með læra þeir betur! Sumir hugsa kannski að maður þurfi líka að kunna að skrifa af því að maður skrifi nú ekki alltaf í tölvu. Auðvitað er það rétt en þú lærir skrift frá 1. og upp í 7. bekk. Í 8.-10. bekk þarftu að undirbúa þig fyrir framhaldsskóla og þar þarftu að skrifa mikið af glósum í tölvu. Þá er mikilvægt að vera búinn að undirbúa sig vel í fingrasetningu í grunnskóla og vera fljótur að skrifa í tölvu. IPad er ágæt æfing fyrir það. Ég veit að það hafa ekki allir skólar efni á iPad enda er hann mjög dýr. Auk þess þarf að kaupa eitthvað um 120 stykki ef þetta á að vera fyrir elsta stigið hér í Giljaskóla. En ef þú hugsar aðeins út í það þá mun þetta borga sig vegna þess að þá þarf ekki að kaupa neinar bækur, blýanta, strokleður og fleira skóladót. Þess vegna finnst mér sniðugt að hafa iPad í stað skólabóka.

Erna Karen Egilsdóttir 9.BIS