Hvað á ég að gera að lokinni grunnskólagöngu?

Þessi spurning brennur á vörum margra unglinga þessa dagana. Margir í 10. bekk eru kannski smeykir við það sem framundan er en það er líka ekkert skrýtið því það er margt sem þarf að íhuga. Til dæmis hvaða braut þeir ætla á og hvaða framhaldsskóli hentar best.

Ég mun setja fram nokkur atriði hér og ætla ég að nota hann Jón sem dæmi. Segjum að Jón sé búinn að þekkja Nonna síðan hann man eftir sér. Þeir eru búnir að vera vinir frá því í leikskóla og svo nokkrum árum seinna eru þeir að útskrifast úr grunnskóla og það er komið að því að velja framhaldsskóla. Jón spyr Nonna hvað hann ætli að gera og Nonni er að velta fyrir sér að fara í Menntaskólann á Akureyri. Hann ætlar að verða læknir. Jóni langar hins vegar í VMA og verða kokkur en er ekki búinn að segja Nonna það. Þetta getur farið þannig að Jón og Nonni fara hvor sína leiðina og hittast kannski ekki jafn oft fyrir vikið. Jón vill ekki að það gerist þannig að hann ákveður að fylgja Nonna í MA þrát fyrir að VMA henti honum betur.

Það sem ég er að reyna að vekja athygli á er að það ætti enginn að velja sér skóla eingöngu vegna þess að vinirnir eru að fara í skólann. Jafnvel þó allir í vinahópnum stefni þangað og þig langi í einhvern annan skóla. Þessi ákvörðun er fyrir þig og engan annan. Ef þú vilt vera endurskoðandi, vertu þá bara endurskoðandi jafnvel þótt einhverjum finnist það kjánalegt eða leiðinlegt. Vertu rafvirki ef það er það sem þig langar. Þú ert að gera þetta fyrir þig. Ég er samt ekki að segja að allir geti verið það sem þeir vilja því þannig er lífið einfaldlega ekki. Tökum dæmi: Jóni langar að vera geimfari. Það vita allir að líkurnar á því eru hverfandi einfaldlega vegna þess að hann er Íslendingur, jafnvel þó Bjarni Tryggvason hafi komist út í geim um árið. Þetta þýðir samt ekki að Jón ætti að skjóta niður drauminn alveg. Hann verður kannski ekki geimfari en hann getur fundið sér skemmtilegt starf, keypt sér stjörnukíki, skoðað stjörnurnar og haft þetta sem áhugamál.

Það sama á við ef Jón vill verða listamaður. Hann reiknar út að hann myndi líklega aldrei verða ríkur af því. Þannig að hann finnur sér starf á listasafni sem safnvörður og tekur listanámskeið í frítíma sínum og kannski verður hann vinsæll listamaður - kannski ekki. En hann hefur samt alltaf safnvarðarstarfið sem varaáætlun því hann vill eignast fjölskyldu og hann veit að hann getur ekki séð fyrir fjölskyldunni með því eingöngu að mála. Ef hann vill halda fjölskyldunni uppi þarf hann að fá útborgað með reglulegu millibili.

Jafnvel þótt þér langi að vera eitthvað skiptir samt einnig máli hvort þú ert hæf(ur) til þess. Það þýðir ekkert að byrja að taka sig á ári áður en framhaldsskóli byrjar og byrja þá að læra. Það þarf aga í námi og vilja til að vanda sig, gera sitt besta og klára ekki alltaf á seinustu sekúndu. En þó að þú eyðir heilu dögunum í að læra og sleppir hinu og þessu fyrir lærdóminn er það allt þessi virði þegar þú ert komin(n) með góða vinnu og búin(n) að stofna fjölskyldu. Þá áttu kannski nægan pening til að eyða í utanlandsferðir eða tívolíferðir því fátt er frítt nú til dags. Þú þarft samt líka að passa þig að vinnan verði ekki aðalatriðið í lífinu. Ef þú þarft að vinna langt fram á nótt aftur og aftur og þau skipti sem þú kemur heim er kona þín eða karl sofandi og þið talið ekkert saman, þá ertu meira eins og herbergisfélagi makans. Það er ekkert líf. Við vinnum til að lifa en lifum ekki til að vinna!

Það er gott að vera með grunndvallarhugmynd um hvað þig langar til að vinna við þegar þú ert að velja menntaskóla. Það er lítil skynsemi að velja bara eitthvað sem er vel borgað ef þú hefur alls engan áhuga. Þá muntu aldrei ná að einbeita þér að náminu og þvingar þig í gegnum námið í staðinn fyrir að gleypa í þig þekkinguna.

Þegar maður veltir fyrir sér þessari spurningu um hvað eigi að gera að lokinni grunnskólagöngu eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

1. að velja skóla sem þig langar að fara í. Þetta er fyrir þig og engan annan

2. finna hvort þú lærir betur verklega eða bóklega

3. velja þér eitthvað sem þig langar að vinna við (svo lengi sem það er raunhæft)

4. hugsa um framtíðina- ekki stökkva blint út í óvissuna

5. einbeita þér 100% að náminu. Ekki fara í eitthvað með hálfum hug heldur finna eitthvað sem þú ert viss um að veki áhuga þinn

 

Gabríel Snær Jóhannesson

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum.