Heimavinnutímar

Í fyrra byrjuðu kennarar á unglingastigi með heimavinnutíma fyrir unglinga. Settir voru tveir heimavinnutímar í viku inn í stundaskrána. Þessir tímar voru hugsaðir til að koma í staðinn fyrir valfag sem krakkar gátu valið, þar sem þeir unnu heimavinnuna sína með hjálp kennara. Þetta hélt áfram nú í ár.

Heimavinnutímarnir eru í fyrsta tíma á mánudögum og föstudögum í 40 mínútur í senn. Umsjónarkennarar á unglingastigi eru með stofurnar sínar opnar og nemendur geta valið sér hvaða stofu þeir vilja fara í. Þetta er mjög sniðugt þar sem sumir geta ekki fengið hjálp heima fyrir og geta þá fengið hjálp hjá kennara í staðinn. Það kemur hins vegar stundum fyrir að nemendur eru ekki með neitt heimanám. Þá hafa þeir oft talað saman í staðinn og kennararnir hafa ekki verið ánægðir með það. Krakkarnir fá skammir fyrir að vera að tala og það er alveg skiljanlegt. Það getur truflað nemendur sem eru að læra að hafa mikinn klið.  Það þarf hinsvegar að finna eitthvað fyrir þá nemendur að gera þegar þeir eru búnir með heimanámið. Í staðinn fyrir að setja fyrir meira heimanám væri hægt að biðja nemendur um að koma með bækur í tíma, vera með spilastokk eða jafnvel teikna. Það er alltaf hægt að finna eitthvað að gera, það þarf bara að koma með hugmyndir og segja hvað er í boði að gera. Það þarf ekki að setja fyrir meira heimanám. Flestir nemendur skólans eru sammála um það að það sé hæfilegt magn af því. Það þarf bara eins og ég nefndi áðan að finna hvað er hægt að gera þegar það er búið. Það þýðir ekki að hrúga heimanámi á alla nemendurna þó að smá hluti nemenda fái ekki heimavinnu eða vinni hana heima. Það gæti aðeins gert það að verkum að nemendur skili heimanámi og verkefnum verr unnum.

Heimavinnutímarnir eru sniðugir. Nemendur fá hjálp við heimanámið og geta unnið saman. Það þarf að finna hinsvegar eitthvað að gera fyrir nemendur sem eru búnir með heimanámið í staðinn fyrir að skamma þá fyrir að tala.

Elísabet Jónsdóttir 10.SKB