Hagnýtar námsgreinar

Giljaskóli er mjög góður skóli að mínu mati. Hann hefur sína kosti og galla eins og aðrir skólar. Ég ætla að segja lítillega frá einni námsgrein sem mér finnst vanta í skólann. Þá ætla ég að fjalla aðeins um námsgrein sem er kennd og mér þykir áhugaverð.

Mér finnst að námstækni eigi að vera kennd á unglingastigi. Æskilegt væri að fá tíma kannski einu sinni í viku eða jafnvel aðra hverja viku þar sem okkur eru kenndar aðferðir til þess að læra, glósa og lesa fyrir próf. Hægt væri að kenna nokkrar aðferðir og hver og einn myndi þá finna út hvað hentaði honum best. Þá yrði líka lögð áhersla á skipulag og hvernig best væri að skipuleggja sig fyrir prófatímana. Mikil viðbrigði fylgja því að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla og þá skiptir skipulagið miklu máli. Ég held að okkur nemendum veitti ekki af svona tímum þar sem margir vita ekki hvernig þeir eiga að undirbúa sig fyrir próf eða hvernig þeir eiga að byrja og halda svo áfram. Ég er viss um að svona tímar myndu skila sér á einhvern hátt. Það sem mér finnst vera kostur við skólann er það sem við erum að læra í þjóðfélagsfræði, til dæmis um sjálfsmyndina. Unglingar í dag eru oft ekki með nógu góða sjálfsmynd. Útlitsdýrkunin er mikil og það er mikilvægt að koma því á framfæri að enginn er fullkominn og þú átt að vera sáttur við þig eins og þú ert. Annað sem er kennt í þjóðfélagsfræði eru réttindi og skyldur. Mikilvægt er að unglingar fái á hreint að þeir hafa réttindi en líka skyldur. Oft hugsa unglingar að þeir megi vera úti til miðnættis samkvæmt lögum en ef foreldrar segja að þeir eigi að koma heim klukkan tíu eða ellefu þá ber þeim skylda að fara eftir því. Í þjóðfélagsfræðinni er einnig fjallað um menntun. Þar er talað um mikilvægi þess að mennta sig og hvað það skiptir miklu máli að mennta sig eftir áhugasviði og læra eitthvað sem þér finnst gaman. Mér finnst þjóðfélagsfræði vera mjög hagnýt grein þar sem margir nauðsynlegir hlutir eru kenndir.

Námstækni er námsgrein sem mér finnst að ætti að vera kennd á unglingastigi í Giljaskóla. Ég held að það myndi koma að miklu gagni. Það sem við lærum í þjóðfélagsfræði finnst mér mjög mikilvægt þar sem verið er að fjalla um hluti sem skipta svo miklu máli. Þetta eru mínar hugmyndir um skólann minn Giljaskóla þar sem mér líður mjög vel.

Sara Mist Gautadóttir 10.IDS