Hættuástand á morgnana við Giljaskóla!

Giljahverfi er eitt best hannaða hverfið á Akureyri þar sem skólinn er í miðju hverfinu og því er aðgengi að skólanum með því allra besta ef ekki besta sem völ er á, á Íslandi. Nemendur sem búa í hverfinu þurfa ekki að fara yfir neinar stórar umferðargötur og ættu því allir að geta gengið í skólann. Það myndi valda mun minni hættu en raun ber, þar sem krakkar á öllum aldri eru keyrðir í skólann oft á síðustu stundu með tilheyrandi stressi og hættu fyrir þá sem velja sér að labba í skólann og þurfa að fara yfir þó þessar hættulitlu götur sem eru í hverfinu.

Mér finnst það mjög kjánalegt og foreldrum til skammar að keyra fullfríska krakka í skólann af þeirri einföldu ástæðu að foreldrarnir nenna ekki að vakna aðeins fyrr, og börnin nenna ekki að labba í skólann. Akstur foreldra á skólabörnum í skólann innan um önnur sem fara gangandi er að mínu mati stærsta og alvarlegasta hættan sem börn búa við sem sækja Giljaskóla. Skólayfirvöld og bæjaryfirvöld hafa mörg spil á hendi til þess að venja foreldra og börn af því að búa til umferðaröngþveiti á bílaplani Giljaskóla á hverjum einasta morgni allan veturinn jafnt í blíðskaparveðri sem og í vetrarfærð t.d þrengja götur, gera einstefnu götur, tölvustýrð umferðaljós þar sem rauða ljósið logar lengur fyrir þá sem ætla að koma að skólanum og svo hreinlega bara að loka götunni að skólanum nema fyrir þá sem hafa þar til gerðan passa. Það eru þá kennarar og starfsmenn og foreldrar fatlaðra nemenda. Ég held að það þurfi smá hugarfarsbreytingu og þá þætti öllum sjálfsagt jafnt foreldrum sem börnum að ganga í skólann. Hættan af óþarfa akstri við Giljaskóla er alltaf lang mest fyrir yngstu nemendurna sem sumir hverjir standa ekki út úr hnefa og eru því illsjáanlegir þegar þeir skjótast á milli bíla og sum svo lágvaxin að það er ekki nokkur leið fyrir bílstjóra að sjá þau í baksýnisspeglinum.

Þessi litlu skrif hjálpa vonandi einhverjum sem lesa þetta að taka þá ákvörðun með foreldrum sínum að ganga ávallt í skólann, nota gangbrautir, endurskinsmerki í skammdeginu og draga að sér hreint loft og njóta útiverunnar á leið í skólann.

Birkir Heimisson

Giljaskóli

10.SÞ