Gott að koma aftur í Giljaskóla

Þegar ég steig aftur inn í Giljaskóla eftir að hafa verið fjarverandi í fjögur ár, var ég rosalega stressuð. Allt sem ég áður þekkti í sambandi við skólann var löngu gleymt og krakkarnir sem ég hafði þekkt þegar ég var lítil voru eins og ókunnugt fólk í mínum augum.

En ég hafði enga ástæðu til að vera stessuð. Nánast allt starfsfólk Giljaskóla vinnur hart að því að láta nemendum líða sem best, bæði í sambandi við nám og  líðan almennt. Þar sem að ég hef verið nemandi í öðrum skóla get ég fullyrt að andinn í Giljaskóla er mjög góður. Mér finnst allir vera teknir inn í hópinn jafnvel þó að manneskjan skeri sig úr á einhvern hátt. Ef  því fylgja vandamál er strax reynt allt til þess að bæta úr því. Til dæmis var nýlega sett upp sérstakt hegðunarver. Það er svona skólastofa þar sem  nemendur sem trufla sífellt í tíma eru sendir og þar geta þeir lært án þess að trufla aðra. Nemendur sem hafa verið sendir í verið þurfa síðan að klára sinn skóladag þar. Þetta fyrirkomulag getur því hjálpað báðum aðilum sem eiga í hlut. Sá sem truflar getur lært án þess að geta truflað og hinn nemandinn sem verður sífellt fyrir truflunum getur unnið í friði. Í Giljaskóla eru líka stundum skemmtilegir dagar til þess að brjóta upp hefðbunda skólaárið. Við höfum nú þegar farið í Norræna skólahlaupið þar sem nemendur skólans geta ákveðið að ganga eða hlaupa 1-5 hringi til góðs. Auk þess eru uppbrotsdagar og ég veit að það er einn í uppsiglingu. Á uppbrotsdögum gera nemendur eitthvað öðruvísi en venjulega sem kennarar hafa unnið að. Persónulega finnst mér þessir dagar létta undir náminu. Ég veit að þó að það komi vika þar sem ég þarf að læra mikið eða er hreinlega komin með leið á því að sitja kyrr, þá er öruggt að það styttist í næsta  uppbrotsdag.  Í stað þemadaga er unglingastig Giljaskóla með kvikmyndadaga. Á þeim dögum hafa allir nemendur á unglingastigi skilað inn handriti að leikriti (bíómynd) og kennarar valið þau bestu úr. Nemendum er síðan skipt í hópa en höfundur handritsins er leikstjóri. Nemendur vinna síðan hart að því að gera myndina sem besta því að hægt er að vinna verðlaun fyrir hina ýmsu flokka. Myndirnar eru svo sýndar nemendum. Ég hef bara verið þátttakandi í einum kvikmyndadögum og  mér fannst þeir mjög skemmtilegir.

Starfsfólk Giljaskóla hjálpar nemendum eftir bestu getu. Við höfum hegðunarver svo að allir nemendur geti einbeitt sér og nóg er af skemmtilegum dögum fyrir þá sem þurfa á tilbreytingu að halda. Meðal annars af þessum ástæðum er Giljaskóli góður skóli.

Alfa Eir Jónsdóttir Axfjörð 10.BKÓ