Frumleg verkefni í Giljaskóla

Margar breytingar hafa átt sér stað í Giljaskóla undanfarin ár og hefur hann verið umræðuefni margra undanfarið. Helstu ástæður þess eru að Giljaskóli er búinn að koma með mörg óvenjuleg og frumleg verkefni og á Brynjar Karl Óttarsson heiðurinn af sumum þeirra.

Til að nefna nokkur dæmi vil ég nefna að þegar  liðin voru 100 ár frá því að Titanic sökk lagði Brynjar fyrir sérstakt verkefni. Í því áttum við að velja einhvern eða eitthvað úr Titanic og tengja við eitthvað seinna í sögunni. Ég valdi Emily „Molly“ Brown því mér fannst hún áhugaverð og ákveðin kona. Ég ákvað að kynna mér hana nánar. Þá sá ég að hún var aktivisti og ég tengdi hana strax við Martin Luther King. Í þessu verkefni lærði ég nefnilega mikð um rannsóknarvinnu og heimildasöfnun. Ég leitaði um allt á netinu og las nokkrar bækur. Héðan í frá þegar ég mun vinna verkefni þar sem ég þarf að finna heimildir mun ég alltaf hugsa um þetta verkefni. Þetta sýnir bara hvað það er frábært að fá tilbreytingu frá því að læra bara beint upp úr bókum. Við skólakrakkarnir þurfum líka að fá að prófa að standa á okkar eigin fótum og svona verkefni eru fullkomin til þess. Brynjar hefur einnig lagt fyrir málstofuverkefni þar sem við áttum öll að velja eitthvað „unglingavandamál“ sem sumum getur fundist erfitt. Til að gera hlutina erfiðari fyrir suma áttum við að kynna verkefnið og lesa upphátt við ræðupúlt fyrir framan alla í árgangnum. Þetta laðaði að nokkra kennara og starfsmenn Giljaskóla. þetta er einfaldlega frábært fyrir þá sem áttu erfitt með það og fannst þetta óþægilegt. Þarna þurftu þeir að stíga út fyrir þægindasviðið og fengu um leið frábæra æfingu á því sviði sem þeir fá nánast aldrei æfingu í og verða fyrir vikið betri í því að tala fyrir framan fólk. Brynjar vakti áhuga Akureyrar-vikublaðs með því að láta nemendur skrifa greinar eins og þessa. Margir hafa fengið að birta þær á netútgáfu blaðsins eða beint í blaðinu og var það mikið „öryggisbúst“.

Giljaskóli tók einnig upp á öðru. Fyrstu kennslutímana á mánudögum og föstudögum fá allir á unglingastigi að velja hvaða fög þeir fara í og geta klárað heimanámið eða bætt sig í því sem þeir standa höllum fæti í. Margt gott hefur komið undanfarin ár og er nýja einkunnarkerfið mjög gott dæmi um það. Margir nemendur voru með hnút í maganum þegar kom að prófum og voru með tölurnar á heilanum. Það liggur við að sumir hafi fengið taugaáfall ef þeir fengu 9,4 í einkunn frekar en 9,5. Nú er A,B,C og D sem er mikið betra. Mér líður betur að vita að ég fékk A og vera glaður með það því þá veit ég að ég er góður í því sem var verið að prófa mig upp úr. Ég bíð spenntur eftir því að fylgjast með þróun þessara mála eftir að ég útskrifast á árinu og lesa greinar þeirra sem koma á eftir okkur.

Gabríel Snær Jóhannesson 10.BKÓ