Fjölbreyttari íþróttakennsla í Giljaskóla

Í Giljaskóla er nýlegt og flott íþróttahús sem notað er í íþróttakennslu skólans. Nemendur fara tvisvar sinnum í leikfimi í viku í 40 mínútur í senn. Mér finnst þessi tími of stuttur og myndi vilja að hann yrði lengdur eða það að það yrði tvöfaldur tími einu sinni í viku. Nemendur fá að kynnast mörgum íþróttagreinum í þessum kennslustundum en gaman væri að kynnast enn fleiri greinum.

Það eru allskonar íþróttagreinar til og sumar þeirra kynntar fyrir okkur nemendum en mér finnst eins og það væri hægt að kynna fleiri greinar hér í Giljaskóla, eða með því að fara í heimsókn á hin ýmsu æfingasvæði. Íþróttahúsinu í Giljaskóla er skipt í tvo hluta, öðru megin er íþróttasalur skólans og hinu megin í salnum er frábær parkour og fimleikaaðstaða sem hægt væri að nota oftar í íþróttatímum og jafnvel fá þjálfara þaðan til að kynna okkur fyrir þeim íþróttum. Það væri gaman að fara stundum í heimsóknir til hinna ýmsu íþróttafélaga í nágrenninu eins og um daginn fóru nokkrir bekkir í Íþróttahöllina á Akureyri og þar var kynnt fyrir okkur innanhúss golfaðstaðan. Þar fengu nemendur að taka einn hring á púttvellinum þeirra. Þar er líka hægt að æfa sveifluna með því að slá í net og vippa á fyrsta flokks teppum sem sérhönnuð eru til golfæfinga. Það væri mögulega hægt að fara í fleiri svona kynningar eins og að fara t.d. í bogfimi eða pílukast.

Á Akureyri er Bogfimisetrið og þar er hægt að kynnast bogfimi. Allur búnaðurinn er á staðnum, bogar, örvar, hlífar og skotmörk er allt sem þarf. Einnig væri hægt að fara í pílukast sem er íþrótt sem allir geta stundað. Fín píluaðstaða er í Þórsstúkunni sem gaman væri að heimsækja. Þegar veðrið er gott og útileikfimi stunduð mætti einnig kynna hjólabrettaíþróttina á nýja hjólabrettasvæðinu sem verið er að setja upp við Giljaskóla.

Eins og ég segi finnst mér íþróttaaðstaðan góð í Giljaskóla en finnst að það mætti nýta fimleika og parkour aðstöðuna betur. Ég myndi vilja lengja íþróttatímana og fara í kynningar um fleiri íþróttir t.d. golf, bogfimi, pílukast og margt fleira.

 

Stefán Vilhelms  9.SD