Fer áhugi á hreyfingu minnkandi í Giljaskóla?

Í Giljaskóla eru margir góðir og duglegir íþróttakrakkar eins og í langflestum grunnskólum landsins ef ekki öllum. Grunnskólanemendur á Akureyri hafa oft verið framúrskarandi í íþróttum eins og hefur sýnt sig á Skólahreysti á Norðurlandi á síðustu árum. Þar höfum við alltaf verið í efstu sætunum. Núna finnst mér áhuginn fara minnkandi t.d. fyrir Skólahreysti, íþróttum og skólasundi. Þetta er slæm þróun að mínu mati. Ástæðuna tel ég vera áhugaleysi fyrir íþróttum og sundi yfirhöfuð.

Mig langar til að taka sem dæmi hvernig venjulegur íþóttatími hja okkur fer fram. Við mætum í íþróttasalinn okkar og hlaupum sirka 15 ferðir. Svo gerum við nokkrar armbeygjur,magaæfingar og bakæfingar. Eftir það förum við yfirleitt í fótbolta, dodgeball og allskonar leiki. Hver tími stendur yfir í 40 mínútur og margir kvarta yfir hversu erfitt þetta sé. Mér perónulega finnst að við eigum að gera eitthvað erfiðara eða hlaupa meira og gera fleiri þrekæfingar. Ég held samt sem áður að allir eigi að ráða við þennan íþróttatíma sama í hvaða formi manneskjan er. Á meðan tíminn stendur yfir eru ekki gerðar of miklar kröfur til okkar. Svo má ekki gleyma íþróttaprófunum sem koma inn á milli en það er píptest, handstöðupróf, hlaupapróf, langstökk, liðleikapróf og fleira. Flestum finnst þessi próf mjög leiðinleg og erfið. Ég held að það sé vegna þess að allir eru búnir að ákveða fyrirfram að þetta sé leiðinlegt. Hver og einn gerir bara eins og hann getur en það hugsa alltof margir um næsta mann við hliðina á sér sem er auðvitað vitlaust. Ég veit um nokkra sem hafa sleppt þessu prófi því þeir dæma sig alltaf út frá einhverjum örðum og þá gera þeir lítið út sjálfum sér í leiðinni. Það á enginn að hugsa um það. Ég held að krakkar þurfi að laga þetta. Annars langar mig að hrósa Einvarði Jóhannessyni íþróttakennara fyrir að sinna okkur mjög vel. Hann hjálpar öllum og hvetur okkur áfram. Það er mjög gott að hafa slíkan íþróttakennara.

Mig langar að nefna norræna skólahlaupið sem fór fram um daginn. Hlaupið er fyrst og fremst til skemmtunar og til að hreyfa sig í leiðinni. Þátttakendum bauðst að ganga og auðvitað var í lagi að gera það. Kennararnir voru mjög ósáttir með hvað margir gengu sem er auðvitað skiljanlegt vegna þess að flestir krakkarnir í skólanum stunda einhverja íþrótt. Krakkarnir á yngsta- og miðstigi hlupu mikið meira en krakkar á unglingastigi. Á unglingastigi var þátttaka mest í 8 bekk. Hún var ekki nægilega góð í 9. bekk og enn verri í 10. bekk. Við erum eldri og eigum að geta gert miklu betur en þetta. Ég veit af hverju krakkarnir í 9. og 10. bekk hlupu svona lítið. Þau nenna þessu einfaldlega ekki! Áhuginn fer minnkandi með hverju ári sem er auðvitað mjög leiðinlegt. Ég hef ekki nákvæma tölu yfir það hversu margir hlupu á unglingastiginu en það voru allavega mun færri en hefði getað orðið. Ég hugsaði með mér þegar ég heyrði töluna hvort við værum ekki fyrirmyndir í augum yngri krakkanna? Erum við það með þessum hætti? Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að áhuginn er enginn fyrir þessu. Unglingar nenna ekki að leggja þetta á sig en myndu þau gera það ef þetta væri skylda? Já, auðvitað. Þá væri það skylda. Kannski þurfum við bara að hafa það skyldu að hlaupa í það minnsta einn skólahring í norræna skólahlaupinu. Einvarður íþróttakennari talaði við okkur eftir skólahlaupið um hverjir hlupu og af hverju þeir sem ekki hlupu hefðu ekki gert það. Enginn vissi svarið við því. Sumar stelpurnar í 9. bekk sögðu að þær hefðu hlaupið hefði það verið skylda. Mér þykir það mjög leiðinlegt þar sem krakkar sem koma næst í 8. bekk og svo framvegis hafa örugglega áhuga á að hlaupa. Ég held að við þurfum einfaldlega að taka á þessu og hafa gaman af þessu. Það á ekki að vera svona erfitt að gera þetta einu sinni á ári. Það er ekki verið að biðja um neitt meira, einungis einn hring. Einvarður sagði okkur að kennararnir hefðu fundað um hvort unglingastigið ætti bara að hætta að vera með í haupinu. Ekki er búið að ákveða hvað verður gert en ef ég mætti velja þá myndum við halda áfram að vera með.

Að lokum langar mig aðeins til að tala um skólasund. Oft hafa krakkar kvartað yfir skólasundi. Það gerir okkur gott að synda og þó við gerum oft það sama er það bara til að kenna okkur sundtökin almennilega. Við erum bara einu sinni í viku í skólasundi. Ég veit að það er mjög léleg mæting í skólasund, í það minnsta hjá stelpum. Ég held að þetta sé eins og með íþróttirnar. Það eiga allir að geta mætt og gert sitt besta. Mér finnst mjög skemmtilegt í skólasundi og ég vil alls ekki að við hættum að fá kennslu í sundi. Ég vona að það sé ekki á dagskránni. Ég vona að skólahlaupið haldi áfram og skólasundið þrátt fyrir lélega mætingu í það.

Sara Samúelsdóttir 9. SAB