Eru íþróttaskór góð fjárfesting?

Allir bekkir Giljaskóla fara í íþróttir tvisvar sinnum í viku. Íþróttirnar eru frábær leið til þess að fá börn og unglinga til þess að hreyfa sig og svo er oft gott að komast aðeins frá skólabókunum og hressa upp á heilann með því að hlaupa smá. Einnig hefur reynslan sýnt fram á það að þeir sem stunda íþróttir og líkamsrækt í barnæsku eru líklegri til að halda því áfram á fullorðinsárunum. Samt sem áður þarf líkaminn að vera í góðu ásigkomulagi til þess að það sé hægt.

Í íþróttatímunum stendur til boða að vera í íþróttaskóm og á innkaupalistum skólans er tekið fram að skór séu hluti af búnaðinum fyrir íþróttir. Eitt er það sem mér hefur þótt ansi furðulegt og það er að fæstir notfæra sér þann kost að vera í íþróttaskóm. Ef maður er í íþróttaskóm þá er líklegt að maður þurfi að fara úr þeim til þess að meiða ekki hina sem ekki eru í íþróttaskóm. Þar sem líkami barna og unglinga er að þroskast og stækka er mjög mikilvægt að huga vel að undirlagi þegar verið er að stunda íþróttir, hvort sem það er í skóla, öðrum áhugamálum eða hvaða hreyfingu sem er. Líkami okkar er ekki gerður fyrir það að hlaupa eða hoppa berfættur á hörðu undirlagi. Afleiðingarnar geta orðið mjög slæmar, s.s. verkir í fótum, hnjám, baki og annars konar meiðsli. Að þessu sögðu má benda á að sjúkraþjálfun barna hefur aukist gríðarlega á seinustu árum og ef til vill má að hluta til tengja það við skóleysi í skólaíþróttum þó að margt annað geti líka spilað inn í.

Kannski er fyrirkomulagið haft svona því að ekki eru allir sem hafa efni á að kaupa íþróttaskó. Góðir íþróttaskór eru mjög dýrir en það er líka sjúkraþjálfun. Til að koma til móts við þá sem eiga ekki íþróttaskó væri t.d. hægt að safna saman gömlum skóm sem nemendur eru hættir að nota og skólinn gæti með því komið sér upp skólager.

Það er því ljóst að það er mikilvægt að börn og unglingar noti góðan skóbúnað i íþróttum, hvort sem það er í skólanum eða utan skóla. Ef allir væru í góðum íþróttaskóm gæti það minnkað líkur á slæmum meiðslum sem svo mikið er um í dag hjá ungu íþróttafólki. Ef til vill er ekki hægt að ætlast til að allir eigi íþróttaskó. Til lengri tíma litið er hins vegar góður skóbúnaður góð fjárfesting.

 

Líney Lilja Þrastardóttir, 9. RK