Eitt og annað um skólann minn

Giljaskóli er svo sem ágætur skóli og kostirnir eru nokkrir. Margir nemendur skrifa um galla og að það þurfi að bæta allt sem er alveg rétt en það er eitthvað af kostum líka.

Einn af kostunum við skólann er skíðaferðin sem farin er ár hvert.  Núna í febrúar var farið með alla nemendur skólans upp í Hlíðarfjall. Þar fer maður á skíði eða snjóbretti. Einnig er hægt að fara á gönguskíði með Sigfúsi, það er veisla. Þá byrjar maður bara á því að renna sér á bretti eða skíðum og svo klukkan tíu er farið á gönguskíði. Þar getur ýmislegt gerst. Til dæmis fóru ég og nokkrir strákar með honum á gönguskíði síðast. Við löbbuðum einhvern hring en á leiðinni missti Sigfús eitt skíðið af sér og þurfti að labba restina af hringnum, ekki á skíðum. Það var vel fyndið.

Nýja  íþróttahúsið hefur slegið rækilega í gegn. Áður fyrr höfðu nemendur þurft að taka strætó eða labba í Síðuskóla. Núna förum við stundum í fimleikasalinn sem er bara mjög gaman. Tímarnir urðu fjölbreyttari fyrir vikið. Giljaskóli hefur einnig góða aðstöðu til að æfa fyrir skólahreysti, mun betri en nokkrir aðrir.

Annar góður kostur við þennan  skóla er að á mörgum stöðum er frítt net í skólanum eða ”wifi”. Nemendur í skólanum hafa lengi viljað fá net í Dimmuborgir og nú loksins varð það að veruleika. Það var mjög  fagmannlega gert af skólastjórnendum.

Heimanámið er líka frekar lítið í þessum skóla, allavega í mínum bekk sem er bara jákvætt og svo þegar það er eitthvað heimanám þá er hægt að nota vinnustundirnar á mánudögum og föstudögum til að vinna það. Mér finnst mjög gott að hafa þessa tíma og finnst að þeir eigi alls ekki að hætta.

Þannig að þegar allt kemur til alls þá er þessi skóli með marga fína kosti. Skíðaferðin getur verið mjög skemmtileg, þá sérstaklega með Sigfúsi á gönguskíðum. Íþróttahúsið hefur komið sterkt inn og netsamband skólans er í góðum málum. Heimanámið er einnig hæfilega mikið og vinnustundirnar gott fyrirbæri.

Bjarni Aðalsteinsson 9. KJ