Einelti verður að uppræta

Einelti hefur ekki mikið verið í Giljaskóla en þegar það kemur upp er alltaf reynt að stöðva það og taka strax á því. Það gengur hins vegar misvel því illa getur reynst að stöðva það utan skólans.
En hvað er einelti og hvernig byrjar það? Hvað er það sem fær annan krakka til að níðast á skólafélaga eða öðrum krökkum? Töluvert hefur borið á einelti í grunnskólum á Íslandi og  mikið hefur verið talað um einelti í fjölmiðlum síðustu daga og vikur. Mjög mikilvægt er að tala um einelti við krakka á öllum aldri og útskýra vel hvað einelti er. Ekki er nóg að tala við krakka frá 5. bekk og upp úr, heldur þarf líka að tala við krakka í 1.bekk og upp í eldri bekki. Jafnvel ætti að byrja á síðasta ári í leikskóla að tala um einelti og eflaust er það gert í einhverju formi. Einelti er alltaf mjög alvarlegt mál og eitt að því versta sem fólk og krakkar geta gengið í gegnum. Einelti getur leitt til þess að þú finnir þig ekki í lífinu og getir engan veginn jafnað þig almennilega eftir svo hræðilega lífsreynslu. Sumt einelti byrjar sem saklaus stríðni eins og flestir gerendur segja að þetta sé en það er það ekki. Að stríða öðrum og baktala getur orðið mjög alvarlegt fyrir þann sem verður fyrir slíku. Það getur orðið til þess að þolanda líði illa með sjálfan sig og vilji stundum ekki mæta í skólann. Þolendum líður svo illa að þeir þora oft ekki að segja neitt við þá sem gætu hugsanlega hjálpað þeim og stoppað eineltið. Þess vegna þarf að tala um þetta,efla forvarnir og veita þolendum leið til að tala við einhvern. Forvarnir skipta mjög miklu máli. Skólar og heimili þurfa að vinna saman gegn einelti því það er erfitt að stoppa einelti þegar boltinn er byrjaður að rúlla. Mikilvægt er að gerandinn, þolandinn, skólinn og foreldrar vinni saman að góðum forvörnum til þess að koma í veg fyrir að einelti þrífist í skólanum og utan hans. Krakkar sem lenda í einelti vita ekkert endilega af hverju þeir lenda í einelti og af hverju verið er að koma illa fram við þá eða slæmir hlutir eru gerðir við þá. Allir eiga rétt á því að vera hamingjusamir og líða vel í leikskóla, skóla, framhaldsskóla og í sinni vinnu.
Einelti getur átt sér stað þar sem fleiri en þrír koma saman. Oftast er einelti í gangi í skólum eða stöðum þar sem hópar krakka koma saman. Forvarnir eru mikilvægur þáttur í að stöðva einelti. Skólar og starfsmenn skóla eru oft í brennipunkti við lausn eineltismála. Einelti verður þó seint upprætt ef gerandi á mjög meðvirka foreldra sem eru blindir á það sem barn þeirra gerir og vilja ekki horfast í augu við það. Einelti er samfélagsvandi sem verður að uppræta.

Evíta Alice Möller 10.IDS