Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember

Haldið var upp á dag íslenskrar tungu í dag í Giljaskóla. Hittust nemendur í matsal skólans, hlustuðu á samnemendur lesa um Jónas Hallgrímsson og sungu saman. Fyrst hittust nemendur í 1.-4. bekk, síðan nemendur í 5. og 6. bekk og að lokum 7.-10. bekkur.

Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. 

Saga dagsins er sú, að tillögu menntamálaráðherra, ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því fór mennta- og menningarmálaráðuneytið að beita sér árlega fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það.