Breytingin að fara úr 7. yfir í 8. bekk

Það er margt sem maður lærir í grunnskóla og mörg fög sem maður þarf að kunna skil á. Eftir því sem maður eldist verður námið erfiðara og heimavinnan meiri. Þegar við vorum t.d. á miðstigi fengum við alltaf viku fyrirvara með allan heimalærdóm. Þegar við erum komin á unglingastigið þurfum við alltaf að vera að skoða mentor og stundum kemur heimanámið bara inn deginum fyrir skiladag. Heimavinnan um helgar hefur líka aukist mikið og hún tekur mjög mikinn tíma frá frítímanum. Helgarfrí á að vera HELGARFRÍ.

Það er mikil breyting á lærdómi úr 7. yfir í 8. bekk og margt sem bætist við í kennslunni. Það eru t.d. valgreinar og meiri hópavinna sem unglingastigið vinnur saman við. Valgreinarnar eru mjög fjölbreyttar, skemmtilegar og margt sem hægt er að velja úr en það er samt mismunandi á milli bekkja. Það sem er í boði er t.d. smíðar, íþróttaval, handmennt, myndmennt, heimilisfræði og útivist. Svo er líka gott að hafa möguleika á að fá metnar íþróttir fyrir þá sem þær stunda.

Þegar maður er kominn í 8. bekk þarf alltaf að vera að skipta um námsefni í töskunum af því að það eru ekki lengur gámar eða skúffur undir skólabækurnar. Þetta getur verið svolítið erfitt fyrir þá sem muna ekki eftir þessu. Sumir nenna ekki að skipta um bækur á milli daga og geyma þá bara allar bækurnar í töskunni. Þá eru töskurnar mjög þungar. Ástæðan fyrir því að gámar og skúffur eru ekki lengur í boði er sú að kennararnir eiga sér stofur og þess vegna þurfum við alltaf að skipta um stofur milli tíma.

Núna þegar við erum komin á unglingastig er alltaf kynjaskipt í íþróttum og sundi. Það er mikill munur því að t.d. stelpurnar þora oft að gera mikið meira þegar strákarnir eru ekki með. Sund er haft strax á eftir íþróttum sem er fínt af því að þá þarf maður ekki að fara í sturtu strax eftir íþróttirnar.

Það sem mér finnst best við að vera komin á unglingastig er að maður þarf ekki lengur að fara út í frímínútum frekar en maður vill. Þá borðar maður bara nestið þegar manni hentar.

Stökkið við það að fara úr miðstigi yfir í unglingastig er oft mikið en samt sem áður mjög skemmtilegir tímar sem taka við. Þessar breytingar krefjast þess að við þurfum að læra að undirbúa og skipuleggja okkur betur fyrir skólann. Valgreinarnar eru góð viðbót í námið og mér finnst gott að geta nýtt tímann minn í það sem skemmtilegt að gera og nýtist manni í leik og starfi.

Lilja Björk Ómarsdóttir 8. RK