Brauðstrit 10. bekkinga

Nemendur í 10. bekk vinna þessa dagana verkefni þar sem þau fá smjörþefinn af daglegu amstri fólks þegar kemur að persónulegum fjármálum. Árganginum hefur verið skipt í sjö hópa og fékk hver hópur útdeilt sinni fjölskyldu. Fjölskyldurnar eru allar mismunandi (t.d. fjöldi barna eða flækjustig varðandi búsetu þeirra). Verkefnalýsingin felur í sér að nemendur eiga að reikna útborguð laun og húsnæðiskostnað, finna hvort fjölskyldan eigi rétt á barnabótum, meðlagi eða húsnæðisbótum, finna út úr kostnaði við tómstundir barna og gæludýrahald og ýmislegt sem fólk þarf að hafa í huga um hver mánaðarmót. Þau þurfa svo að komast að því hvort endar nái saman og gera ráðstafanir ef upp á vantar eða varðandi hvað á að gera við afgang ef einhver er. Það er eitthvað dásamlegt við að heyra krakkana ræða sín á milli um þessi mál, þau læra heilmikið, vinna vel saman og læra að taka tillit hvert til annars. Setning vikunnar er án efa: „Við höfum ekkert efni á þessu. Við verðum að fá okkur einhverja kvöldvinnu… nei þá þarf að redda pössun fyrir krakkana, þau eru svo lítil.”