Betri Giljaskóli

Giljaskóli er náttúrulega mjög góður skóli, góðir krakkar og góðir kennarar, en það eru nokkrir hlutir sem mættu betur fara. Ég ætla að byrja á því að tala um mætingu unglinga í skólanum.

Hér í Giljaskóla mætir unglingastig í skólann kl. 8 á morgnana eins og allir aðrir. Samt sýna rannsóknir að unglingar eigi mjög erfitt með að vakna svona snemma og sýni verri námsárangur þegar þeir eru þreyttir. Þeir skólar sem hafa prófað að leyfa unglingum að mæta seinna á morgnana segja að það sé allt annað líf fyrir bæði nemendur og kennara. Nemendurnir eru mun hressari og eiga auðveldara með að einbeita sér sem gleður kennarana. Þess vegna finnst mér að Giljaskóli mætti endilega taka upp þá reglu að byrja skóladaginn á unglingastigi aðeins seinna en á miðstigi og yngsta stigi.

Einnig sakna ég þess að hafa ekki opið net í skólanum lengur. Ekki alls fyrir löngu var lokað fyrir netið án nokkurra útskýringa. Mig grunar svo sem að einhverjir hafi verið að fara á netið í símunum sínum án leyfis í tímum eða eitthvað þess háttar en finnst samt að það hefði mátt hafa samráð við okkur nemendur áður en því var lokað. Kannski hefði verið hægt að komast að einhverju samkomulagi við okkur nemendur um síma- og netnotkun svo allir geti verið ánægðir. Mín tillaga er að halda netinu opnu en að allir setji símana sína á einn stað í stofunni í upphafi kennslustundar svo enginn sé að stelast í símann sinn í tíma en í staðinn geta allir farið á netið í símunum sínum í frímínútum ef þeir vilja. Einföld lausn sem allir græða á.

Að lokum vil ég fá að minnast á mitt helsta baráttumál frá því að ég byrjaði í Giljaskóla í 5. bekk. En það er að fá tómatsósu þegar það eru hamborgarar í matinn. Til þessa hefur nefnilega eingöngu verið boðið upp á hamborgarasósu sem mér þykir ákaflega vond. Ég hef minnst á þennan skandal í hverju leiðsagnarmatinu á fætur öðru en ekkert hefur gerst. Ég vona innilega að ég fái þessa ósk mína uppfyllta áður en ég hætti í skólanum.

Það er því mitt álit að til þess að gera Giljaskóla að enn betri skóla mættum við unglingar mæta seinna í skólann en nú er, að hægt sé að fara á netið í frímínútum og að möguleikinn á tómatsósu með hamborgara verði að veruleika.

 

Kári Þórðarson