Árshátíð Giljaskóla

Í flestum skólum landsins eru haldnar árshátíðir. Giljaskóli er þar engin undantekning. Árshátíðir í Giljaskóla eru mismunandi eftir bekkjum. Í  1.-7. bekk eru búin til stutt leikrit innan bekkjanna sem svo  eru sýnd fyrir fjölskyldu og vini. Unglingastigið, 8. – 10. bekkur,  er bæði með stuttmyndadaga og svo  er haldið stórt árshátíðarball.

Stuttmyndadagarnir ganga út á það að krakkarnir skipta sér niður í litla hópa og búa til handrit. Bestu handritin eru síðan  valin og búnar eru til stuttmyndir úr þeim. Mér finnst svona verkefni mjög sniðug. Þetta er skemmtilegt uppbrot frá venjulegri kennslu en samt sem áður læra krakkar mikið, meðal annars að búa til handrit, leika og klippa. Stuttmyndirnar eru einnig sýndar fyrir fjölskyldu og vini. Það skemmtilegasta við árshátíðina er að mínu mati árshátíðarballið sem 10. bekkur heldur fyrir alla krakka í 8.-10. bekk á Akureyri. Nemendur og kennarar leggja hart að sér að gera árshátíðina sem flottasta og hlakka ég  mikið til að geta fengið að  skipuleggja og halda hana með mínum árgangi á næsta ári. Það stærsta og skemmtilegasta við árshátíðina eru borðarnir og kosningarnar. Allir krakkarnir í 10. bekk fá borða, hver og einn með því orði sem bekkjarfélögunum finnst hæfa þeim best. Einnig eru kosin stelpur og  strákar í hverjum árgangi sem ungfrú og herra, prins og prinsessa eða kóngur og drottning. Það skapast alltaf svo mikil stemming í kringum kosningarnar og þykir mér mjög leiðinlegt að það hafi verið ákveðið að banna þær. Margir krakkar sem eru komnir í framhaldsskóla eiga ennþá borðana sína og þykir mjög vænt um þá. Árshátíðarballið mun þó alltaf vera ein helsta minning krakka frá grunnskólagöngu þeirra.

Ég myndi segja að stuttmyndadagarnir væru með þeim skemmtilegustu í skólanum.
Einnig er árshátíðin æðislegur viðburður sem ég vona að  verði haldin um ókomin ár en finnst þó afar leiðinlegt að búið sé að banna kosningarnar. Giljaskóli er samt sem áður alveg frábær skóli.

Pálína Höskuldsdóttir

9. sþ

Giljaskóli