Allir eru fallegir á sinn eigin hátt

Ég er feit! Ég er ljót! Ég er með svo mikið af bólum!
Þetta er eitthvað sem alltof margir segja við sjálfan sig og mest megnis stelpur. Mig langar til þess að fjalla aðeins um lélega sjálfsmynd vegna þess að það glíma allt of margir við þennan vanda.

Léleg sjálfsmynd getur byrjað sem saklaus sjálfsgagnrýni en endað sem alvarlegt þunglyndi eða jafnvel leitt til sjálfvígs hugsana. Útlitsdýrkun er eitthvað sem á stóran þátt í sjálfsmynd. Við fáum bein og óbein skilaboð um það hvernig við eigum að líta út eins og til dæmis í fjölmiðlum og á netinu. Margir unglingar eru að bera sig saman við myndir af „fræga“ fólkinu sem er mjög slæmt vegna þess að þessar myndir eru „photoshopaðar“ eða fólkið hefur farið í lýtaaðgerðir til að ná hinu „fullkomna“ útliti eins og margir segja. Líkamsímynd er einnig mjög stór þáttur í sjálfsmynd. Líkamsímynd byggist á því hvernig maður skynjar sinn eigin líkama. Við stjórnum ekki hvernig við fæðumst, hvernig beinabyggingu við höfum eða hvernig vaxtarlag við fæðumst með en við getum stjórnað lífsstílnum og gert það besta úr því sem við fæðumst með.

Hvað er léleg sjálfsmynd? Léleg sjálfsmynd er óöryggi og lágt sjálfsmat. Það er þegar þú sérð ekkert nema galla hjá sjálfum þér og álit annarra vegur meira en þitt eigið. Þú rífur sjalfan þig niður með niðurbrjótandi orðum sem þú myndir ekki endilega segja við aðra. Þú hundsar hrós sem þú færð eða tekur ekki mark á því og gerir lítið úr sjálfum þér. Sá sem er með lélega sjálfsmynd er óöruggur og á þar með í meiri hættu á að lenda í slæmum félagsskap. Þeir eru einnig líklegri til að láta undan hópþrýstingi sem getur haft slæmar afleiðingar. Sá sem er með lélega sjálfsmynd tekur gagnrýni illa og ef hann heyrir hlátur þá heldur hann að það sé verið að hlæja af sér. Hann er með mjög lítið sjálfstraust og vill helst enga athygli. Sú skoðun sem við höfum á sjálfum okkur hefur mikil áhrif á allt líf okkar og þess vegna er mjög mikilvægt að vera með góða sjálfsmynd. Rannsóknir sýna að þeir sem eru með góða sjálfsmynd eru líklegri til að verða hamingjusamir og njóta velgengni í lífinu.

Vandinn er sá að alltof margir eru að bera sig saman við aðra og eru ekki ánægðir með sjálfan sig eins og þeir eru. Þeir eru með mjög lítið sjálfstraust og eiga því erfitt með að vera þeir sjálfir. Þeir eru alltaf hræddir um að einhver dæmi þá neikvætt hvort sem það er útlitslega eða hvað þeir gera eða segja. Fólk í þessari stöðu á erfitt eða hreinlega þorir ekki að segja það sem því finnst og jafnvel stendur ekki með sjálfu sér. Það jafnvel gerir hluti sem það veit að eru rangir en gerir það samt vegna þess að einhver annar segir að það sé rétt.

En hvað getum við gert? Jú, við getum bætt þetta með því að styrkja sjálsmyndina, til dæmis með því að hrósa og hætta að dæma aðra fyrir að vera þeir sjálfir. Þótt að sá sem er með lélega sjálfsmynd hundsi hrósið fyrst þá getur það náð árangri með tímanum. Það er einnig gott ráð að segja alltaf eitt nýtt hrós við sjálfan sig í spegli á hverjum degi. Á endanum sérðu að það er margt gott við þig og þú hættir að einbeita þér einungis af göllunum þínum. Það mikilvægasta er samt að allir séu góðir við náungann og að láta engum líða illa! Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig! Byggjum góða sjálfsmynd á eigin mati og áliti. Við erum misjöfn og útlitið eitt stjórnar ekki lífshamingjunni. Mundu að enginn er fullkominn og allir eru fallegir á sinn eigin hátt. Sættu þig við sjálfa(n) þig eins og þú ert. Því betur sem þú sættir þig við sjálfa(n) þig þeim mun betri verða samskipti þín við þá sem þú umgengst og enginn getur látið þér líða eins og þú sért ómerkilegri en aðrir nema þú leyfir það.

Þannig má segja að léleg sjálfsmynd geti orðið að alvarlegu vandamáli. Þú sérð ekki kostina hjá sjálfum/sjálfri þér og þar með líður þér illa með sjálfa(n) þig. Við getum bætt þetta með allskonar ráðum en ekkert getur breytt því hvernig við fæðumst. Við getum ákveðið að vera sátt við það sem við fæðumst með og verið hamingjusöm. Ekkert getur breytt hugsunum þínum nema þú sjálf(ur).

Trúðu á þig! Treystu á þig! Vertu þú sjálf(ur)!

 

Erna Karen Egilsdóttir 10. SKB

Greinin er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendur 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í Giljaskóla í febrúar.