Að vera ný í Giljaskóla

Að vera ný í skóla getur verið stressandi en á sama tíma spennandi. Ég kom úr 25 manna skóla, Árskógsskóla. Í bekknum þar vorum við fimm en hér í Giljaskóla erum við 19. Svo þú getur rétt ímyndað þér hvað það er stressandi að koma í skóla með allt að  400 krökkum.

Árskógsskóli er skóli í Dalvíkurbyggð. Hann nær upp í 7.bekk en því hefur nýlega verið breytt. Skólinn var alltaf upp í 10. bekk. Eftir breytingarnar fara krakkar í Dalvíkurskóla eftir 7. bekk. Ég var í Árskógsskóla í sex ár og eitt ár í skóla á Hólum í Hjaltadal. Skólarnir þrír eru allir mjög ólíkir og aðstæður mismunandi en af þeim finnst mér Giljaskóli skemmtilegastur og fjölbreyttastur.

Ég man alltaf eftir fyrsta deginum í Giljaskóla. Ég var mjög stressuð en allt starfsfólkið var svo yndislegt og hjálpaði mér mikið. Umsjónarkennarinn minn kynnti sig og spjallaði aðeins við mig um skólann og hún sagði mér hvernig allt virkaði og það hjálpaði mikið. Ég rataði ekki mikið en kom mér áfram með að spyrja gangaverðina. Þær voru alltaf hressar og sögðu mér hvert ég ætti að fara.

Krakkarnir voru frábærir, þeir töluðu strax við mig og buðu mér að vera með. Það hjálpaði. Það skiptir nefnilega mjög miklu máli að finna að maður sé velkomin. Ég var mjög stressuð fyrstu dagana en nú líður mér vel og er ekkert stressuð fyrir að mæta í skólann.

Giljaskóli er góður skóli og ég er mjög sátt með hann. Ég væri hinsvegar til í fleiri uppbrotsdaga og er Giljaskóli með nokkra svoleiðis eins og til dæmis Skíðaferðina. Mér finnst að það mættu vera fleiri útivistardagar svo krakkarnir fái ekki leið á því að sitja alltaf inni og læra. Annars er það fátt sem ég myndi vilja breyta.

Eins og fram hefur komið getur viðmót starfsfólks skólans skipt miklu máli þegar nýir nemendur eru að koma nýir í skólan, ásamt nemendum sem fyrir eru og er mín reynsla af Giljaskóla góð.

Unnur Birta Sævarsdóttir 9. RK