Heilræði frá Barnaheillum - Save the Children á Íslandi

Kæru foreldrar/forráðamenn

Á undanförnum árum hefur það aukist að foreldrahópar eigi samskipti í gegn um samfélagsmiðla og er það jákvæð þróun, sem getur aukið og bætt samskipti foreldra og foreldrastarfið. Mikilvægt er að þau samskipti séu uppbyggileg og stuðli að betra samstarfi um velferð barnanna í samstarfi við skólann. Jákvæð samskipti stuðla að góðu samstarfi, góðum skólabrag og góðu skólastarfi.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur heilræði frá Barnaheillum- Save the Children á Íslandi um jákvæð samskipti, jafn á neti sem og í daglegu starfi. Gott samstarf og samvinna foreldra og skóla er ein forsenda velferðar barna. Gagnkvæm virðing foreldra og starfsfólks skóla er mikilvæg, svo og samstarf og góð samskipti foreldra innbyrðis. Afstaða skólans til foreldra og foreldra til skólans, annarra barna og foreldra þeirra endurspeglast í barnahópnum. Foreldrar geta lagt mikið af mörkum til að styðja samfélag barnanna og hvetja börnin til jákvæðra samskipta við alla í hópnum.