Eineltismál eru dauðans alvara

Reykjavík, 11. mars 2011

Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra hefur ályktað um aðgerðir gegn einelti í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið sem og vegna þeirra upplýsinga sem borist hafa um eineltismál í samfélaginu: Að gefnu tilefni, og í ljósi umræðunnar í samfélaginu um einelti, vill stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra hvetja skólastjórnendur, sveitastjórnarmenn, foreldra, nemendur og alla þá aðila sem koma að uppeldi og menntun barna til að láta eineltismál sig varða.

Einelti er dauðans alvara og afleiðingar þess geta haft langvarandi áhrif á einstaklinga. Mikilvægt er því að allt skólasamfélagið axli ábyrgð á viðbrögðum við einelti og komi á úrbótum. Brýnt er að setja fram áætlanir um úrræði í hverjum skóla. Ef minnsti grunur vaknar verður að bregðast við. Viðbragðsáætlanir þurfa að vera í stöðugri þróun og endurskoðun, sýnilegar á heimasíðum skóla, sveitarfélaga og í fréttabréfum nemendafélaga og foreldrafélaga.

Allir þurfa að vita hvað gera á þegar upp kemur einelti og mikilvægt er að kennarar, foreldrar og nemendur viti hvert þeir geta snúið sér með vandamál sín hvort sem um er að ræða gerendur eða þolendur eineltis. Fræða þarf alla aðila um hvað einelti er, hve mikið er í húfi og hvernig hægt er að vinna gegn því með samstöðu og samvinnu heimilis, skóla og nærsamfélagsins.

Í menntalögum eru velferð og þarfir nemenda höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á að samstarf heimila og skóla hafi það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Við berum öll ábyrgð og brýnt er að samfélagið sýni samtöðu og láti einelti ekki viðgangast. Það á aldrei að líðast að barn sé lagt í einelti eða að einelti sé ekki stöðvað. Barn á að njóta bernsku sinnar til fulls.

Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.