Um skólann

Giljaskóli stendur við Kiðagil og þjónar íbúðabyggðinni í Giljahverfi. Undirbúningur að byggingu skólans hófst árið 1995 og sama ár hóf skólinn starfsemi sína í húsnæði leikskólans Kiðagils.  Hönnun skólahússins hófst í byrjun árs 1996 og Fanney Hauksdóttir var akitektinn. Fyrsti áfangi var tekinn í notkun 1. febrúar 1998, annar áfangi á haustdögum 2002. Loks var byggður skólaíþróttasalur undir sama þaki og fimleikasalur í íþróttamiðstöð Giljaskóla sem lokð var við að byggja sumarið 2010.

Skólinn er nú 4.719 m2 auk íþróttahúss. Heildarflatamál lóðar er 16.493 m2. Fullskipaður getur skólinn hýst um 450 nemendur en í honum eru nú 390 nemendur. Starfsmenn eru um 70.

Giljaskóli starfar eftir uppeldis- og agastefnunni Uppeldi til ábyrgðar – eða Uppbyggingu í daglegu tali. Uppbyggingarstefnan er aðferðafræði þar sem áhersla er lögð á sjálfsskoðun, ábyrgð á eigin hegðun, uppbyggileg samskipti, kennslu sjálfsaga og sjálfsstjórn. Við höfum öll grunnþarfir og eigum rétt á að uppfylla þær á jákvæðan hátt en aldrei á kostnað annarra einstaklinga.

Í skólanum hefur verið unnið að margvíslegum þróunarverkefnum sem of mikið mál yrði að telja upp hér. Látum nægja að nefna Uppbyggingarstefnuna, Byrjendalæsi, Grenndargralið, Núvitund og nýjungar í námsmati þar sem nemendur eru metnir út frá því hversu góðir námsmenn þeir eru, hve vel þeir leggja sig fram fremur en hve góðar einkunnir þeir fá.  Nýjar leiðir í íslenskukennslu á unglingastigi sem nefnd hefur verið Giljaskólaleiðin hefur vakið athygli en þar er áhersla m.a. lögð á lestur, ritun greina í blöð og málfundi. Skólinn hefur tvisvar fengið Grænfána, síðast haustið 2014. 

Í skólanum er sérdeild fyrir fjölfatlaða nemendur.  Haustið 2013 var stækkun á húsnæði sérdeildar tekin í notkun.  Við það gjörbreyttist aðstaða nemenda og starfsfólks sérdeildar.

 

Skólastjórar:

Halldóra Haraldsdóttir (1995 – 2003)
Jón Baldvin Hannesson (2003 - 2019)
Kristín Jóhannesdóttir (2019 -        )