Uppbyggingarstefnan - uppeldi til ábyrgðar

Uppbyggingarstefnan - uppeldi til ábyrgðar

Samræður kennara og nemenda sem ekki snúast beinlínis um nám og kennslu beinast í flestum tilvikum að félagslegum og persónulegum þáttum. Sú orðræða skiptir miklu máli fyrir skólabrag og hefur jafnframt áhrif á þroska nemenda og sjálfsmynd. Skilningur á grundvallarþörfum einstaklinga, ábyrgð á eigin tilfinningum og hegðun, framkoma sem dregur úr ótta og ásökunum, leit að lausnum en ekki blórabögglum, þekking á möguleikum sínum og takmörkunum, allt eru þetta atriði sem ráða úrslitum um velgengni og vellíðan hvers og eins. Eru einhverjar leiðir betri og skilvirkari en aðrar til að styrkja þessa þætti? Samræður þurfa að stuðla að sívaxandi ábyrgð og skilningi einstaklinga eftir því sem þeir eldast. Við getum unnið markvisst að því að efla sjálfsstjórn nemenda þannig að þegar þeir verða sjálfráða ungmenni hafi þeir byggt upp innri kompás sem þeir byggja ákvarðanir sínar og framkomu á og þurfi litla ytri stýringu. Unnið hefur verið markvisst samkvæmt Uppbyggingarstefnu í Giljaskóla frá haustinu 2006.

Uppeldi til ábyrgðar - Uppbyggingarstefna (Restitution) í skólastarfi er hugmyndakerfi þar sem lögð er áhersla á sjálfsskoðun, uppbyggileg samskipti, kennslu sjálfsaga og sjálfstjórn í samskiptum. Uppbyggingarstefnan miðar að því að finna leiðir til lausnar á ágreiningsmálum, að við stjórnumst af innri hvötum frekar en ytri, að skoða hvernig við viljum vera, frekar en hvað við erum að gera. Hún skapar aðstæður fyrir einstaklinginn til að geta leiðrétt og bætt fyrir mistök sín, gera betur og snúa síðan aftur til hópsins með aukið sjálfstraust. Nemendum er kennt að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Miðað er að því að finna þörfina bak við það sem við erum að gera. Markmiðið er að lifa við öryggi.

Kennari og nemendur ákveða í sameiningu hvaða lífsgildi þeir vilja hafa að leiðarljósi í sínum bekk og einbeita sér síðan að því að finna út hvernig þeir geta haft grundvallaratriði gildanna í heiðri. Nemendur og kennari koma sér saman um hlutverk beggja. Þegar kennari getur fækkað afskiptum af nemendum fá þeir aukið frelsi og verða viljugri til að hlusta og taka eftir þegar mikið liggur við varðandi nám og samskipti. Bekkjarfundir eru hluti af stefnunni og tungumál Uppbyggingar litar dagleg samskipti, ekki síst þegar starfsmenn þurfa að leiðbeina nemendum varðandi frávik í hegðun og samskiptum. Tungumálið miðar alltaf við að nemendur séu ábyrgir fyrir eigin hegðun og þeir fá kost á að bæta sig áður en gripið er til aðgerða sem hindra að þeir geti eyðilagt kennslustundir, stuðlað að slæmri líðan annarra nemenda eða hindrað með öðru móti að aðrir sinni sínum þörfum. Vinabekkjadagur með uppbyggingarþema er orðinn fastur liður á skóladagatalinu.

Hluti af Uppbyggingarhugsuninni eru ýmis verkefni sem kalla má óhefðbundin. Í skólanum starfar „talsmaður nemenda“ en það er starfsmaður sem vinnur í félagsmiðstöð skólans frá morgni og fram yfir hádegi. Talsmaður nemenda sér til þess að nemendur eiga alltaf aðgang að félagsmiðstöð og þeirri afþreyingu sem þar er að finna, bæði í frímínútum og þegar kennslustundir á unglingastigi falla niður. Starfsmaðurinn vinnur með nemendaráði að ýmsum verkefnum eins og til dæmis skipulagi  og framkvæm árlegs eineltisdags og skipulagi ýmissa uppbrotsdaga. Loks er talsmaður nemenda nokkurs konar trúnaðarmaður nemenda sem þeir geta borið sín mál undir og fengið stuðning við að leysa.

Mikið hefur verið um heimsóknir í Giljaskóla frá öðrum grunnskólum á landinu og hafa nemendur séð um leiðsögn hópa um húsnæðið og kynnt starfsemi skólans frá sínu sjónarhorni. Spakmæli eru víða á gólfum, í tröppum og á veggjum, auk þess sem þau eru birt á auglýsingaskjá skólans. 

Kennarar hafa sett fram heiti um góð vinnubrögð og viðmót sem þeir vilja tileinka sér.

Við kennarar Giljaskóla

 • erum vingjarnlegir og brosum oft

 • látum okkur þykja vænt um alla okkar nemendur

 • mætum öllum nemendum með skilningi

 • hjálpum nemendum þegar þeir glíma við erfiðleika

 • erum þolinmóðir 

 • erum sanngjarnir og samkvæmir sjálfum okkur

 • höfum gaman af að kenna

 • bregðumst ekki trausti nemenda

 • öskrum ekki á nemendur

 • gerum aldrei lítið úr nemendum

 • reynum að kynnast nemendum okkar vel

 • trúum á möguleika allra nemanda

 • hvetjum nemendur áfram og hrósum þeim þegar þeir leggja sig fram

 • gerum námið eins áhugavert og merkingarbært og við getum

 • höfum gott skipulag og fjölbreytni í vinnubrögðum

 • gefumst ekki upp á nemanda þótt tímabundið kunni að ganga illa

 • gerum miklar kröfur á nemendur um að gera sitt allra besta

 • leyfum engum nemanda að eyðileggja kennslu og nám

 • gerum allt sem við getum til að hjálpa öllum nemendum að ná árangri.

Allt sem hér að framan er lýst tengist beint og óbeint Uppbyggingarstefnunni, á samhljóm við markmið Aðalnámskrár í lífsleikni og er okkar leið til að vinna í samræmi við sýn Giljaskóla.