Undanfarin ár hafa nokkrir íslenskukennarar á unglingastigi unnið eftir hugmyndafræði sem gengur undir nafninu Giljaskólaleiðin. Stoðirnar eru þrjár og einkenna þær að miklu leyti þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í íslensku frá 8. bekk og þar til grunnskólagöngu lýkur. Áherslan er á framsögn, lestur og ritun í gegnum raunveruleg, merkingarbær viðfangsefni sem endurspegla veruleikann eins og hann blasir við utan veggja skólans. Reynt er eftir fremsta megni að koma afurðum nemenda, hvort sem þær er í ræðu eða riti, fyrir augu og eyru almennings.
Framsögn þjálfum við með óundirbúnum ræðuhöldum með reglulegu millibili allt skólaárið sem og með formlegri hætti einu sinni til tvisvar á önn. Málþing nemenda eru einkennandi fyrir áherslur í framsögn. Nemendur sem stunda nám við Giljaskóla öll árin á unglingastigi taka t.a.m. þátt í sex málþingum, einu á hverri önn, ýmist með bekknum eða árgangnum. Á málþingunum flytja nemendur eigin erindi. Eru þau gjarnan hljóðrituð og send í loftið í gegnum veraldarvefinn fyrir foreldra og aðra áhugasama að hlýða á. Á haustönn fara fram rökræður nemenda á milli þar sem þeir takast á um álitamál, skiptast á skoðunum og læra að taka tillit til ólíkra sjónarmiða.
Lestur er mikilvægur á unglingsárum ekki síður en á fyrstu árum skólagöngunnar. Helsta markmiðið er leita allra mögulegra leiða við að glæða áhuga á bókum og lestri. Að ákvörðunin um að lesa komi innan frá – að nemandinn upplifi gleðina við að setjast niður í rólegheitum með góða bók. Jákvætt viðhorf kennarans til bóka og lestrar og vilji til að smita frá sér er lykilatriði áður en lagt er af stað. Nemendur fá tíma á stundatöflu fyrir „frjálslestur“ en þá les hver nemandi fyrir sig bók sem hann velur sér eftir sínu áhugasviði. Kennarinn les einnig reglulega fyrir hópinn rétt eins og tíðkast á yngri stigum og þá kynnir hann bækur og rithöfunda fyrir nemendum, t.d. í bókaflóðinu fyrir jólin. Liður í að glæða áhuga og auka líkur á lestri er að auka aðgengi nemenda að bókum. Það gerum við með því að setja upp bókahillur sem víðast í skólanum.
Ritun skipar stóran sess í íslenskunámi nemenda og hefur gert undanfarin ár. Helstu viðfangsefni eru skapandi skrif í persónulega dagbók sem nemendur halda allan veturinn. Frelsi nemenda er umtalsvert þar sem þeir skrifa oftar en ekki um eigin hugleiðingar. Í einhverjum tilfellum skrifa þeir eftir fyrirmælum kennara. Í dagbók er áherslan meiri á innihald og sköpunargleði en reglur um málfar og stafsetningu. Greinaskrif sem birtast á opinberum vettvangi eru orðin að föstum lið hjá nemendum Giljaskóla. Þeir skrifa eina grein á hverri önn á þessu þriggja ára tímabili, samtals sex greinar sem birtar eru á opinberum vettvangi. Gerðar eru kröfur um málfar og stafsetningu þar sem kennari fer yfir drög að greinunum áður en þær eru fullunnar og gerir athugasemdir eftir því sem þurfa þykir. Textagerð í tengslum við málþing er þónokkur þar sem nemendur rita sinn eiginn texta sem þeir svo flytja munnlega. Þessu vinnuferli öllu fylgir óhjákvæmilega töluverður lestur. Þannig skarast allar þrjár stoðir Giljaskólaleiðarinnar í einu og sama verkefninu.
Hér að neðan má sjá myndir sem hægt er að smella á. Þannig má nálgast frekari upplýsingar um hugmyndafræðina, greinar og málþing nemenda og fésbókarsíðu Giljaskólaleiðarinnar.