Nýr skólastjóri og nýr deildarstjóri yngri bekkjardeilda

Miðvikudaginn 15. maí kemur nýr skólastjóri til starfa við Giljaskóla. Það er Kristín Jóhannesdóttir sem verið hefur skólastjóri í Oddeyrarskóla síðast liðin ár.

Kristín tekur formlega við sem skólastjóri þennan dag en ég mun vinna með henni út skólaárið við að setja hana inn í mál og aðstoða eftir þörfum. Ég mun sjá um skólaslitin hér í Giljaskóla í vor og Kristín um skólaslitin í Oddeyrarskóla.

Þorgerður Guðlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri, hættir einnig nú í lok skólaársins og kveður þar með síðasti aðstoðarskólastjóri á Akureyri. Í öllum grunnskólum bæjarins verða þá skólastjórar og með þeim deildarstjórar þar sem annar er staðgengill skólastjóra. Vala Stefánsdóttir, deildarstjóri í Giljaskóla, verður deildarstjóri eldri bekkjardeilda og staðgengill skólastjóra í Giljaskóla. Nýr deildarstjóri yngri bekkjardeilda hefur verið ráðinn og tekur til starfa 1. ágúst 2019. Það er Helga Rún Traustadóttir sem verið hefur kennari í Lundarskóla síðustu ár en þar áður m.a. unnið sem ráðgjafi á Miðstöð skólaþróunar hjá Háskólanum á Akureyri.

Þær Kristín og Helga Rún eru öflugir einstaklingar og verður gaman að fylgjast með hvernig þeim tekst, ásamt Völu, að efla skólastarfið í Giljaskóla enn frekar. Óskum við þeim velfarnaðar í því mikilvæga starfi.