Lífshlaupið er hafið!

Eins og allir vita er Giljaskóli heilsueflandi grunnskóli. Megintilgangur þess er að vinna að því að nemendur og starfsfólk skólans skapi sér heilbrigðan lífsstíl til frambúðar. Verkefnið felst í hvatningu og leiðbeiningum en ekki boðum og bönnum.

Á síðasta ári tóku bæði starfsfólk og nemendur skólans þátt í Lífshlaupinu, sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Lífshlaupið gengur í meginatriðum út á það að hvetja fólk til aukinnar hreyfingar í daglegu lífi.

Við höfum skráð okkur til leiks á ný og hefst gamanið í dag, miðvikudaginn 3. febrúar. Öll miðlungserfið og erfið hreyfing telur en nemendur þurfa að ná samtals a.m.k. 60 mínútna hreyfingu á dag (má vera í nokkrum áföngum yfir daginn). Grunnskólakeppnin (keppni nemenda) stendur í tvær vikur en vinnustaðakeppnin í þrjár. Við biðjum foreldra og forráðamenn að taka virkan þátt í þessu með okkur og hvetja börnin til hreyfingar, hreyfa sig með þeim og aðstoða þau við skráningu.

Það sem krakkarnir geta gert til að koma á daglegri hreyfingu:

❖ ganga í og úr skóla

❖ göngutúrar með foreldrum/fjölskyldum

❖ Íþrótta- og sundtímar í skólanum

❖ sundferðir (getur verið skemmtileg bekkjarsamvera)

❖ skautar (skautadiskó gæti verið skemmtileg bekkjarsamvera)

❖ krakkarnir í hverfinu fara saman út í leiki

❖ dansa (t.d. semja dans / fara í just dance)

❖ fjölskyldan saman á göngu- eða svigskíði

❖ fótbolti á vellinum við skólann eða annars staðar

❖ íþróttaæfingar á vegum íþróttafélaga

❖ hreyfing í frímínútum