Íþrótta- og sundaðstaða í Giljaskóla

Í Giljaskóla er góð íþróttaaðstaða en nemendur skólans þurfa að fara í rútu til þess að fara í sund. Farið er tvisvar sinnum í íþróttir og einu sinni í sund á viku. Það er mjög þægilegt að geta gengið innanhúss niður í íþróttahús án þess að þurfa að fara út í kuldann. Í 1.-7. bekk eru bæði kynin saman í íþróttum og sundi  en kynjaskipt í báðum fögum í 8.-10. bekk. Mér finnst ekki skemmtilegt að við séum kynjaskipt í íþróttum því að oftast er meiri hraði og meira keppnisskap í strákunum. Í sundi skiptir það ekki jafn miklu máli því að stelpur og strákar eru oftast á sitthvorri brautinni. Til þess að geta verið kynjaskipt í íþróttum og sundi þarf líka að vera kynjaskipt í einhverjum öðrum tímum svo að allt passi í dagskrána.

Íþróttahúsið hjá Giljaskóla er íþróttahús sem aðrir skólar ættu að líta upp til. Íþróttasalurinn er stór og hátt er til lofts. Gólfið er eins konar gúmmí sem er mjúkt en ekki of mjúkt svo að erfitt væri að hlaupa á því. Margir eru í skóm en ekki taka allir þá ákvörðun. Er því nauðsynlegt að hafa gott gólf svo að minni líkur verði á meiðslum. Mér finnst að það ætti að vera regla um hvort  þú ættir að vera í skóm eða berfættur því oft þarf að biðja nemendur að fara úr skónum svo að þeir stígi ekki á aðra nemendur sem eru berfættir. Einn af stærstu göllunum við íþróttir, að mínu mati og held ég flestum öðrum, er að við förum í próf. Ég væri frekar til í að kennarinn myndi gefa okkur einkunn  út frá hegðun og dugnaði í tímum. Við hliðina á íþróttasalnum er fimleikasalur sem við fáum stundum að nota. Ekki er mikið af hlutum sem hægt er að kvarta yfir í íþróttahúsinu. Í sundi eru eflaust fleiri vandamál eða kvartanir frá nemendum. Sem dæmi er okkur þjappað mikið í klefunum svo að aðrir gestir fái meira pláss og við fáum ekki mikinn tíma til þess að slaka á í pottinum.

Íþróttahús Giljaskóla er hið besta en auðvitað er hægt að finna eitthvað sem fólki líkar ekki við. Ég er nokkuð viss um að flestir nemendur væru til í að leggja niður próf í íþróttum. Í sundi er oft kalt á veturna og plásslítið í klefunum. Ef horft er frá því neikvæða er íþrótta- og sundastaða í Giljaskóla nokkuð góð.



Jakobína Hjörvarsdóttir 8.RK