Börnin bjarga

Nemendur í 10. bekk æfa hjartahnoð
Nemendur í 10. bekk æfa hjartahnoð

Þessa dagana taka nemendur 10. bekkjar þátt í verkefninu ,,börnin bjarga“. Tilgangur verkefnisins er að kenna nemendum í 6. til 10. bekk endurlífgun, markvisst og árlega. Rannsóknir sýna að slík kennsla eykur fjölda þátttakenda í endurlífgun umtalsvert og bætir lífslíkur í kjölfar hjartastopps utan spítala svo um munar. Markmiðið er að öll börn sem útskrifast úr grunnskóla kunni að bregðast við hjartastoppi og beita hjartahnoði og bjarga þannig mannslífum.

Þetta verkefni er hluti af átakinu Kids save lives, sem Endurlífgunarráð Evrópu (ERC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) settu af stað í þeim tilgangi að hvetja allar þjóðir heims til að innleiða endurlífgunarkennslu meðal grunnskólanema. Megin áhersla er lögð á verklega kennslu sem byggð er á bóklegri fræðslu, og er stuðst við H-in þrjú; HORFA-HRINGJA-HNOÐA. Eyrún skólahjúkrunarfræðingur halda utan um verkefnið hér í Giljaskóla.

Nokkrar staðreyndir:

  • 7 af hverjum 10 hjartastoppum (utan spítala) gerast í heimahúsi.
  • Í 74% tilvika eru vitni til staðar, oftast fjölskyldumeðlimir
  • Að meðaltali hefja aðeins 33% vitna endurlífgun – margir hverjir óttast það að gera mistök
  • Stærstu mistökin eru að gera ekki neitt!
  • Að meðaltali er aðeins 8% lifun af hjartastopp utan spítala 
  • Þessu verður að breyta og það er hægt að gera m.a. með markvissri endurlífgunarkennslu strax í grunnskóla.

Við hvetjum alla foreldra/forráðamenn til að kynna sér endurlífgun, en inná skyndihjalp.is eru góðar upplýsingar um endurlífgun. Einnig er hægt að sækja þar vefnámskeið í skyndihjálp.