Blár dagur - dagur einhverfunnar 2. apríl

Í tilefni af vitundar- og styrktarátakinu BLÁR APRÍL sem er nú haldið í sjötta sinn, eru börn og fullorðnir hvattir til að klæðast bláu þriðjudaginn 2. apríl til að sýna einhverfum stuðning og samtöðu. Undanfarin ár hafa margir brugðið á það ráð að birta myndir á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #blarapril sem hefur lífgað upp á daginn og hjálpað til við að breiða út boðskapinn.

Sem fyrr er það Blár apríl - Styrktarfélag barna með einhverfu sem að bláa deginum stendur. Markmið átaksins er að vekja athygli á einhverfu og safna fé til styrktar málefnum er varða börn með einhverfu. Öll starfsemi styrktarfélagsins er unnin í sjálfboðavinnu og allt styrktarfé rennur óskert til söfnunarátaksins.
Á fyrsta starfsári félagsins leiddi styrktarátakið til þess að hægt var að gefa öllum grunnskólum landsins sérkennslugögn að andvirði fimm milljóna króna. Árið eftir var styrktarféð nýtt til að koma á námskeiði fyrir foreldra og aðstandendur barna með einhverfu, þátttakendum að kostnaðarlausu. Þörfin leyndi sér ekki og aðsóknin var slík að félagið hefur haldið námskeiðin æ síðar og þátttakendur farnir að nálgast 700. Gefið hafa verið út tvö vönduð fræðslumyndbönd um einhverfu sérstaklega ætlað börnum. Þar fóru Ævar vísindamaður og drengurinn Dagur ofan í saumana á einhverfu og svo kom út annað myndband með henni Maríu í aðalhlutverki. Í ár verður haldið áfram með námskeiðin og gefin verða bæði myndböndin út með ensku tali.

Stöndum saman og fögnum fjölbreytileikanum. Því lífið er blátt á mismunandi hátt!