Umgengni og umbætur í Giljaskóla

 Hæ hæ.  Ég heiti Ríkey Lilja og er í 9. bekk hjá Brynjari í Giljaskóla. Ég fékk það verkefni að segja frétt sem tengist skólanum. Það fær mann til að hugsa um hvað maður á að skrifa. Það fyrsta sem mér datt  í hug var að fjalla um umgengni í skólanum. Í fréttinni langar mig að segja frá umgengni okkar unglinganna í Giljaskóla.

Fyrst langar mig að nefna ruslið. Það sést kannski ekki vel á göngunum en nemendur í 8. - 10. bekk eiga það oft til að henda rusli og drasli á gólfið. Ef samviskusamur einstaklingur á leið hjá og gerir athugasemd við sóðaskapinn eiga sóðarnir það til að svara með skætingi; ,,Hvað með það? Kerlingarnar taka þetta bara. Þær vinna hér til að þrífa‘‘. Já, rétt er það. En kannski ekki við að ganga frá eftir hvern og einn og tína upp rusl af gólfinu sem nemendur henda. Ímyndum okkur hvernig skólinn liti út ef allir höguðu sér svona. Er það eitthvað sem okkur finnst eftirsóknarvert? Vissulega ganga ekki allir illa um skólann en þeir eru engu að síður nokkuð margir. Ekki einn, ekki tveir og ekki þrír. Þeir eru fleiri. 

Þar sem ég er að nefna dæmi um atriði sem við getum bætt í skólanum, langar mig að koma með fleiri hugmyndir um hvað má betur fara hér í Giljaskóla. Mér finnst að það þurfi að gera námið meira persónulegt og búa þannig um hnútana að það höfði meira til hvers og eins. Það eru ekki allir jafn góðir í öllu. Ef eingöngu er farið eftir því hvað bekkurinn í heildina þarf að bæta sig í er kannski ekki farið í þau atriði sem þessir fjórir eru ekki góðir í. Þið skiljið hvað eg meina, hehe. Mér finnst að nemendum eigi að standa til boða að vera lengur í skólanum eftir að kennslu lýkur til að vinna heimanám eða annað sem þeir hafa misst úr. Við getum kallað þetta opna tíma. Í þeim gæti kennari verið til aðstoðar því það er ekki alltaf að foreldrar geti hjálpað börnunum sínum með verkefnin. Þegar komið er á unglingastig  þarf að hugsa vel um námið og bækurnar. 

Mér finnst að nemendur eigi að hafa aðgang að skápum í skólanum til að geyma bækur og önnur námsgögn. Það er frekar þreytandi að taka til skóladót heima á hverjum degi, sérstaklega vegna þess að stundum mega bækurnar verða eftir í skólanum. Þetta venst reyndar en ég held að fyrir nemendur væri þægilegt að hafa skápa. Ég veit að margir hafa rætt þennan möguleika en aldrei hefur verið gert neitt í því. 

Ég lýsi eftir sófa í horninu á 3. hæð eins og var einu sinni. Vá, það yrði geðveikt!!! Þá yrði minna vesen með félagsmiðstöðina og álagið á henni myndi minnka. Nemendur myndu áfram fara í félagsmiðstöðina en um leið safnast saman í sófanum á ganginum. Þar yrði hægt að hvíla sig á milli tíma og hlaða batterín. 

Ríkey Lilja Steinsdóttir 9. BKÓ

 

Nemendur á 3. hæð Giljaskóla. Ruslafata á hvolfi og enginn sófi! Myndin er sviðsettJ