Það sem Giljaskóli mætti bæta á næstu árum

Ég fór á stúfana, hitti nemendur Giljaskóla á göngunum og  spurði þá eftirfarandi spurninga: ,,Er eitthvað sem þér finnst vanta eða mætti betur fara í Giljaskóla”? Ekki svo að skilja að Giljaskóli sé lélegur skóli, alls ekki. Það er bara gaman að sjá hvað nemendum finnst. Ég spurði um það bil 20 krakka, bæði á unglingastigi og á miðstigi. Ég ætla að segja hér frá niðurstöðunum í stuttu máli.

Allir sem ég ræddi við á unglingastigi sögðu að stólarnir á efstu hæð væru mjög eða frekar óþægilegir og maður fengi i bakið á því að sitja lengi á þeim. Þess vegna væri æskilegt að skipta þeim út á næstu árum fyrir nýrri og þægilegri stólum. Athyglisvert er að enginn sem ég ræddi við á miðstigi kvartaði yfir stólunum.

Margir vildu fá skápa á gangana. Meira var um að nemendur á efstu hæð óskuðu eftir því. Þeir sögðu töskurnar oft vera þungar og leiðinlegt væri að bera allt draslið á milli stofa.

Langflestir viðmælendur mínir voru sammála um að gott væri að fá nokkra sófa á gangana til þess að geta ,,chillað” í frímínútum. Ég nefni hér einfalt dæmi: Ef nemandi er staddur á þriðju hæð og það eru 4-5 mínútur eftir af frímínútum þá borgar sig varla að fara niður í Dimmuborgir. Þá væri fínt fyrir viðkomandi að geta hent sér beint í sófann og beðið þar spenntur eftir tíma. Reyndar er kominn einn glæsilegur trébekkur á efstu hæðina frá Gumma smíðakennara og krökkunum sem eru í smíðum. Hins vegar er það ekki alveg það sem krakkarnir voru með í huga. Ekki er beinlínis hægt að henda sér í trébekkinn til að slaka á. Hann er engu að síður fínn til þess að setjast niður með bækurnar sem komnar eru í hillu á vegginn þar sem bekkurinn stendur.

Margir af þeim sem ég talaði við, og reyndar tveir kennarar einnig, vildu fá sjálfsala í skólann. Greinilegur áhugi er á málinu. Skemmst er að minnast fréttar um sjálfsala eftir nemanda í 9. bekk, Karl Anton Löve sem birtist hér á heimasíðu skólans fyrr í vetur. Vert er að taka fram að ekki er hér verið að tala um nammi- og gossjálfsala heldur miklu frekar sjálfsala sem býður upp á holla hresssingu. Má þar nefna skyr, skyrdrykki, samlokur og kannski hnetur eða annað hollt og gott til að redda sér ef nestið hefur orðið eftir heima. Ég held að sjálfsali sem þessi yrði vel nýttur af nemendum og starfsfólki og að skólinn gæti hugsanlega grætt einhverja aura í þokkabót. Þetta er klárlega ,,win, win situation! ”

Annars finnst mér Giljaskóli mjög fínn skóli, góðir kennarar og létt andrúmsloft.


Númi Kárason 10. KJ