Óvirkir foreldrar

Bekkjarfulltrúar í mínum bekk hafa verið óvirkir undanfarin ár. Fáir þeirra hafa staðið fyrir  einhverju skemmtilegu með bekknum fyrir utan þá staðreynd að foreldrar berjast ekki um að komast í þetta embætti. Síðast þegar við gerðum eitthvað fórum við í Lazertag og svo út að borða sem var mjög gaman. Það er bara alltof langt síðan! Ætli aðrir bekkir hafi sömu sögu að segja?

Ég ætla ekki að leiðbeina bekkjarfulltrúum um það hvað hægt er að gera en það þarf ekkert endilega að vera eitthvað mjög dýrt. Við getum haft bekkjarkvöld eða gistikvöld. Síðast þegar það átti að vera gistikvöld, sem var í sjöunda bekk, fékk hinn bekkurinn í árganginum að hafa gistikvöldið en okkar var frestað. Hvorki kennarinn né foreldrar komust til að vera með okkur en það er víst skilyrði fyrir því að við fáum að gista í skólanum. Er það eitthvert stórmál fyrir foreldra sem eru bekkjarfulltrúar að tala saman og skipuleggja eitthvað skemmtilegt og sniðugt til að gera saman? Nýlega ræddum við í bekknum saman, í lífsleiknitímum hjá Brynjari, um að stefna á bekkjarkvöld eða andvökunótt. Það er svolítið langt síðan og ekkert hefur gerst því það vantar fullorðna umsjónarmenn til að vera á staðnum með okkur á gistikvöldinu. Foreldrarnir þurfa ekki að vera allan tímann. Ef fleiri en bara bekkjarfulltrúarnir bjóða sig fram geta þeir skipt tímanum á milli sín til að þurfa ekki að vera þarna alla nóttina. Ég er líka alveg viss um að allir í bekknum mínum eru til í að hafa einhverskonar „Íþróttakvöld“. Þá getum við kannski leigt nýja íþróttahúsið eitt kvöld og þegar það eru ekki fimleikar aða parkour-æfingar þá getum við leikið okkur á trampolíni eða hoppað ofan í svampagryfjuna. Svo er hægt að vera með  fótbolta, handbolta, körfubolta eða eitthvað annað sniðugt hinum megin í salnum.

Að lokum vil ég vitna í heimasíðu Giljaskóla, undir liðnum Bekkjarfulltrúar 2011-2012:

Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra innbyrðis, hafa frumkvæði að því að sem flestir foreldrar séru virkir í bekkjarstarfinu. Best er að skipta verkefnum með foreldrum í upphafi skólaárs, t.d. umsjón bekkjarskemmtana. Gott er að mynda hópa nokkurra foreldra til að vinna verkefnin“.

 

Andri Þór Guðmundsson 9.BKÓ