Hvað má bæta í Giljaskóla?

Giljaskóli er góður skóli og bara með þeim bestu. Það eru frábærir nemendur og kennarar en það er alltaf eitthvað sem er hægt að bæta. Ég veit að skólinn hefur ekki efni á stórum og kostnaðarsömum breytingum en það er hægt að byrja á þeim minni. Til dæmis er hægt að mála veggi. Veggir sem eiga að vera hvítir eru gulir. Það er vel hægt að byrja á svona minni breytingum og á endanum verða þær stærri. Mig langar að nefna nokkur atriði sem mér finnst að hægt væri að bæta til að gera skólastarfið í Giljaskóla enn betra en það er.
Mælt er með að krakkar hreyfi sig sirka hálftíma til klukkutíma á dag. Margir hreyfa sig ekki nóg, eða bara í skólaíþróttum og sundi. Við í Giljaskóla erum í tveimur íþróttatímum og einum sundtíma á viku. Hreyfing er holl fyrir alla og mér finnst að við ættum að vera einu sinni í viku í tvöföldum tíma. Þá væri meiri hreyfing fyrir alla og ég er ekki ein um að hafa þessa skoðun.
Ég veit að það eru margir sem kvarta undan því sama t.d. skólatöskunum. Ég vil blanda mér örlítið í þá umræðu. Á hverjum degi göngum við krakkarnir í 8.-10. bekk með of þungar töskur sem skaða okkur! Bak- og axlaverkir eru algengir á unglingastigi. Ég sjálf er með hrygg- og mjaðmagrindaskekkju og þeir eru fleiri sem eru með slæma verki. Þessar töskur hjálpa okkur ekki. Rosalega gott væri að fá skápa á gangana. Sérstaklega myndi muna um þá á þriðjudögum og fimmtudögum en þá þurfum við að vera með auka tösku undir íþrótta- og sunddót. Þá væri gott að geyma töskurnar, úlpurnar og allt dótið okkar í skápunum. Ef það væri heimanám þyrftum við aðeins að taka það með okkur heim. Við gætum tekið snagana í burtu og sett skápana í staðinn. Gangurinn er alveg nógu breiður fyrir þá.

Ef við fengjum ipada, sem er annar kostur, þyrftum við heldur ekki að vera með þessar töskur og jafnvel enga skápa. Við gætum fengið allar bækurnar sem við þyrftum að nota í ipadana og þá yrði skólastarfið mikið fjölbreyttara. Skólinn þyrfti þá bara að kaupa bækur fyrir yngri stigin. Kannski er dýrt fyrir skólann að kaupa marga ipada en það myndi borga sig á endanum.

Bæði skáparnir og ipadarnir eru góðar hugmyndir um það hvernig hægt væri að bæta skólann okkar. Hreyfing er holl og gott er að hafa heilbrigðar axlir og bak til að geta hreyft sig almennilega. Þetta er það sem mér finnst að hægt væri að breyta og bæta í skólanum okkar en það má vissulega nefna fleira. Annars er skólinn okkar alveg fínn og góður skóli.

Selma Hörn Vatnsdal 9.BIS