Flokkun og rusl

Þegar ég kom í skólann fannst mér flokkunin á rusli ekki mjög góð. Mér finnst kerfið skrítið. Það er aldrei talað um þetta þannig að kennarar og krakkar flokka ekki nógu vel og ekki rétt. Krakkar og kennarar setja ruslið ekki í rétta ruslatunnu og ganga ekki nógu vel um þær. Ruslatunnurnar eru einnig of litlar, of fáar og fleiri tunnur þarf  á allar hæðir.

Sumir krakkar eru kannski að borða nammi í bréfi t.d. Prince Polo og vita ekki hvað á að gera við bréfið þannig að þeir henda því bara á jörðina. Þegar það er snjór grefst það ofan í snjóinn og svo þegar snjórinn bráðnar er ruslið þar ennþá. Svo kemur vindur og það fýkur út um allt og verður mjög subbulegt. Þeir krakkar sem eiga eldri systkini eiga það til að herma eftir og venja sig svo á það að henda rusli á jörðina. Þegar krakkar eru með tyggjó setja þeir það oft undir borð, undir stóla og á snaga. Það er ekki þægilegt að sitja við borð og fá tyggjó í buxurnar, eða hengja úlpu á snaga og fá tyggjó í úlpuna. Það er einnig mjög sóðalegt þegar krakkar eru að borða eitthvað eða drekka úr fernu og reyna að hitta í ruslatunnuna en hitta ekki og skilja ruslið bara eftir á gólfinu. Það væri gott ef einhver tæki að sér að kynna eða hafa litla sýnikennslu um flokkun og hvað rusl fer illa með jörðina okkar. Einnig þyrftu tunnurnar vera fleiri og stærri. Hvítapappírstunnan mætti vera gerð hvít og úr plasti og almenntrusl gæti verið miklu stærri og kannski græn á lit. Það vantar eiginlega eina rusla tunnu í skólann og það er tunna fyrir lífrænt rusl. Hún er aðeins niðri í matsal og í heimilisfræðistofunni og þær mættu vera aðeins stærri. Tunna fyrir lífrænt rusl ætti að vera á hverri hæð, allavega á hæð tvö og þrjú. Þeir staðir þar sem vantar ruslatunnur eru textílmenntstofan, náttúrufræðistofan, bókasafnið og íþróttahúsið. Einnig vantar fleiri tunnur á hæð tvö og þrjú í skólanum.

Mikilvægt er að við hugsum vel um skólann og umhverfi hans. En til að við getum gert það þarf að fræða krakkana og kennara meira um flokkun og rusl. Einnig þarf flokkunarkerfið í skólanum að vera einfalt og nógu margar ruslatunnur svo ekki þurfi að hafa mikið fyrir því að leita að þeim.

 

Sara Agneta Valdimarsdóttir 8. RK