Bókasafnið – vannýtt auðlind

Gabríel og Benedikt
Gabríel og Benedikt

 „Tilgangur bóka er oftast að miðla upplýsingum með texta, táknum og myndum. Bókasöfn eru staðir þar sem margar bækur eru, oft til útláns eða lestrar almenningi. “   Heimild:  http://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%B3k

Til að laða fólk að bókasöfnum þarf umhverfi safnanna að vera aðlaðandi. Þau verða að bjóða upp á þann tækja- og bókakost sem almennt eru gerðar kröfur um að bókasöfn búi yfir. Þetta getur kallað á aukið fjármagn sem ekki er til staðar í tilfelli skólabókasafns Giljaskóla. Fáar unglingabækur koma út á ári hverju svo ekki sé nú talað um þann fjölda bóka sem raunverulega höfða til unglinga. Afleiðingin er að okkar mati sú að allt of fáir nemendur nýta sér bókasafnið.

Ein leiðin við að fá nemendur inn á safnið væri að bjóða upp á betri aðstöðu til að læra undir próf eða verkefni og til að afla sér upplýsinga og fróðleiks. Við ræddum við Ingunni Vigdísi Sigmarsdóttur en hún vinnur á bókasafninu. Við spurðum hana álits. Hún sagði aðstöðuna á safninu vera nokkuð góða. Við teljum hins vegar að gott megi bæta og í tilfelli bókasafnsins þurfi að bæta aðstöðuna enn frekar til að laða unglingana að. Bætt aðstaða á safninu kallar á fleiri tölvur því þær eru jú nauðsynlegar í námi unglinga nú til dags. Fleiri tölvur kalla á enn meira fjármagn. Kosturinn við að bjóða upp á slíka aðstöðu yrði sá að þá hefðu nemendur aðgang að bókum á sama stað. Þeir gætu þá líka leitað upplýsinga í bókunum í stað þess að hafa kannski eingöngu einhverjar falskar upplýsingar af netinu. Fólk treystir of mikið á netið og er ekki alltaf nógu gagnrýnið á það sem þar er að finna. Í því sambandi má nefna síðu sem vísað er í hér í upphafi; Wikipedia. Þar getur hver sem er breytt síðunni og sett inn það bull sem fyrst kemur upp í hugann. Ef svo einhver ákveður að nota þessar upplýsingar, t.d. við gerð heimildaritgerðar, er sá hinn sami í vondum málum. Hins vegar gefur enginn heilvita maður út bók með fölskum upplýsingum til þess eins að plata fólk – og reikna með að græða morðfjár fyrir. Eða hvað? Við teljum ekki og því segjum við að þarna hafi bókin vinninginn umfram tölvuna. Þess vegna mættum við nemendur nýta bókasafnið meira.

Bækurnar á bókasafni Giljaskóla eru ýmist keyptar hjá Pennanum, af bókamörkuðum eða af netinu. Við spurðum Ingunni hvort skortur væri á bókum á safninu. Hún sagði svo vera. Helst væri skortur á fræðiritum og unglingabókum. Ingunn sagði fáar unglingabækur koma út á ári og að það skýrði hvers vegna ekki fleiri titlar væru keyptir á safnið. Auk þess væru bækurnar dýrar. Þar sem unglingarnir lesi þær fljótt og klári þær á skömmum tíma vanti fleiri titla. Við tökum undir orð Ingunnar. Okkur finnst vanta fleiri unglingabækur og þá virkilega góðar bækur.

Á dögunum var gefin út ný unglingabók sem heitir Carpe Diem (Gríptu Daginn).  Bókin var kynnt í nokkrum skólum á landinu þ.á.m. hér í Giljaskóla. Tvær konur frá Húsavík skrifuðu hana saman, þær Eyrún Ýr Tryggvadóttir forstöðumaður bókasafnsins þar og Kristjana María Kristjánsdóttir kennari. Eyrún hefur gefið út fjórar bækur en þetta er fyrsta bók Kristjönu.  Þær höfðu, að eigin sögn, gaman af því að skrifa þessa bók. Hana mætti gjarnan kaupa á safnið. Gaman er að geta þess að Ingunn var sjálf að gefa út bók um daginn. Um er að ræða ljóðabók sem heitir Lausagrjót úr þagnarmúrnum. Fáir hér í skólanum vissu að hún væri ljóðskáld áður en bókin kom út. Ingunn hefur nú þegar gefið safninu eintak af bókinni og við fögnum því. Nemendur hafa án efa gaman af að lesa bók eftir einn af starfsmönnum skólans.

Okkur finnst tími til kominn að gera breytingar á bókasafninu. Það þarf að gera nemendum kleift að koma á safnið til að vinna og það þýðir fleiri tölvur. Bæta þarf bókakostinn með þarfir unglinga í huga. Nemendur skólans nýta þessa aðstöðu allt of lítið þó yngri krakkarnir séu sennilega duglegri en hinir sem eldri eru. Bókasafnið þarf aukið fjármagn. Ingunn unir þó hag sínum vel á bókasfninu en segir vissulega ekki eins skemmtilegt að vinna á bókasafni sem lítið er brúkað. Þá óskar hún eftir að fá myndir af útskrifuðum nemendum skólans til að hengja upp.

Að lokum viljum við koma á framfæri einni lokaósk: Betra setuhorn á safnið.

Þakka þér lesandi góður fyrir tíma þinn.

Benedikt Orri Pétursson 9. BKÓ

Gabríel Snær Jóhannesson 9. BKÓ

Ingunn Vigdís Sigmarsdóttir bókasafnskennari og ljóðskáld