Af skápamálum, heimanámi og mötuneyti

Alma Rún Ingvarsdóttir
Alma Rún Ingvarsdóttir

Af skápamálum, heimanámi og mötuneyti.

Í Giljaskóla finnst mjög mörgum nemendum og sumum kennurum og öðrum starfsmönnum vanta skápa á ganginn. Geymslupláss fyrir nemendur til að geyma dótið sitt í. Það yrði mikið þægilegra fyrir nemendur að hafa skápa því þá yrði taskan léttari og það færi betur með bakið á krökkunum. Þá þyrftu nemendur ekki að fara með neitt dót eða tösku í skólann. 

Undirrituð tók viðtal við nemanda í 9.bekk og spurði hann álits. Fyrir svörum varð Ásdís Inga Viktorsdóttir. Ásdís sagðist vilja fá skápa af því að þá þyrfti ekki að vera að dröslast með allt dótið sitt heim og væri bara hægt að geyma allt í skólanum. Til dæmis yrði hægt að geyma peninga og allskonar dót. Það kæmi sér vel ef maður myndi gleyma peningum fyrir snúð eða eitthvað slíkt. 

Mögulega væri hægt að koma skápunum fyrir á 3. hæð þar sem svalirnar eru. Það mætti brjóta niður handriðið og kannski lengja svalirnar að suðurveggnum til þess búa til meira pláss. Þá mætti nýta austurendann á ganginum betur (þar sem að stofa Ingu Dísar er). 

Mörgum nemendum finnst heimanám of mikið. Heimanám í Giljaskóla er mismikið eftir því hvað kennararnir setja fyrir. Rosalega margir hata heimanám og mörgum finnst það algjörlega tilgangslaust. Til hvers að vakna í skólann og vera alveg hálfan daginn í skólanum að læra allan tímann (fyrir utan 35 mínútur sem nemendur fá samtals í frí) ef maður fær svo mikið heimanám til þess að gera í frítíma sínum í staðinn fyrir að vera kannski með vinum, fara í bíó og svo framvegis?

Óhætt er að segja að matur í mötuneytum grunnskóla sé oft á milli tannanna á fólki. Undirrituð hefur ákveðnar skoðanir á matnum sem borinn er á borð nemenda og starfsmanna Giljaskóla. Mér finnst t.d. fiskibollurnar oft á tíðum vera á mörkunum að vera fullsoðnar og satt best að segja vondar. Stundum er kjötið seigt og erfitt að tyggja það. Af hverju ekki bara að kaupa almennilegan og góðan mat? Hann er kannski aðeins dýrari en að kaupa vondan og ódýran mat sem eiginlega enginn borðar og síðan er honum hent. Það er algjör peningasóun. Ég vil halda því til haga að ekki er allur matur í mötuneyti Giljaskóla eins og fiskibollurnar eða kjötið. Pastað er dæmi um góðan mat sem borinn er á borð í skólanum.

Alma Rún Ingvarsdóttir 9. BKÓ

 

Hér má breikka ganginn til suðurs til að búa til meira pláss.