Uppbyggingartímar

Mér finnst of lítið gert í því að bæta sjálfsmynd krakka í grunnskólum. Oft finnst mér of lítið spáð í hvernig okkur líður og lítil áhersla lögð á að bæta sjálfstraust okkar. Ef okkur gengur vel í náminu og við fáum góðar einkunnir, þá sé allt í góðu lagi. En þar er bara hálfur sigur unninn. Jafnvel þó við séum klár þá gengur ekkert ef við höfum ekkert sjálfstraust og við gefumst strax upp ef við finnum fyrir einhverju mótlæti. Við eigum að vita þetta allt saman. Eins og kom á daginn þegar við í 9. bekk héldum málstofu fyrir áramót sem bar yfirskriftina; Hvað telur þú mikilvægast að nemendur séu búnir að tileinka sér þegar skólagöngu lýkur? Þar kynntum við niðurstöður okkar á því hvað fólk á mismunandi aldri telur vera mikilvægt veganesti út í lífið að loknu grunnskólanámi. Þar kom skýrt fram að félagslegir þættir eins og sjálfstraust, mannasiðir og áræðni skipta fólk mestu máli. Af hverju sjáum við þá svo lítið af þessu í skólanum?

Við í 9. bekk fórum í námstækni síðastliðinn vetur þar sem við lærðum ýmislegt. Til dæmis hvernig best væri fyrir okkur að læra, hvernig við eyðum tímanum, hvar styrkleikar okkar liggja o.s.frv. Við tókum ýmis sjálfspróf og fengum þannig niðurstöður sem voru sérsniðnar að okkar þörfum. Ég lærði mjög mikið af þessu en sumum í bekknum mínum leiddist þetta óskaplega. Ég veit ekki af hverju en kannski áttuðu þau sig ekki alveg á því hversu mikilvægt þetta er. Það er jú svo oft sem verið er að þröngva okkur í einhvern kassa sem á að henta öllum en gerir það alls ekki nema þá einhverjum örfáum prósentum. Við erum mismunandi. Þá er gott að geta fengið aðstoð við að finna eitthvað sem hentar manni sjálfum.

Því ætla ég að stinga upp á tímum, t.d. í annari hvorri viku, þar sem unnið verður að því að styrkja sjálfsmyndina, bæta veikleika og styrkja enn betur það sem gott er í fari okkar. Ég kýs að kalla tímana Uppbyggingartíma (falla vel inn í stefnu skólans). Gott væri að hafa nokkra kennara með ólík lífsviðhorf. Þannig hefðum við val um að vera undir leiðsögn þess kennara sem við ættum helst samleið með. Svo þurfa þetta ekki að vera kennarar. Mögulega væri hægt að ná í fólk sem hefur náð langt í lífinu. Góðar fyrirmyndir sem geta leiðbeint okkur að lifa drauminn. Ef til vill væri gott að skipta okkur í hópa eftir hæfileikum og áhugasviði. Í þessum tímum gætum við fengið tækifæri til að finna út hvernig manneskjur við viljum verða. Tímarnir ættu ekki að vera leiðinlegir, heldur einmitt andstæðan við það. Skemmtilegir! Þeir ættu að snúast um að leyfa okkur að fá tækifæri til að tjá okkur og gera tilraunir með mismunandi drauma. Að sjálfsögðu ættu þeir líka að hjálpa okkur í náminu en þetta helst allt í hendur að mínu mati.

Ef þú hefur trú á sjálfum þér og kjarkinn til að sækja það sem þér ber, ætti ekki smávegis mótlæti í stærðfræði eða íslensku að vera neitt vandamál. Ef þú veist að þig langar að verða geimfari og ert með stuðning til þess þá eru þessar hindranir á leiðinni bara til þess að styrkja þig. Uppbyggingartímarnir gætu hjálpað okkur að komast út úr þessum kassa. Þessu formi sem einkunnir og almennar venjur vilja hefta okkur í.

Þóra Höskuldsdóttir 9. BKÓ