Uppbrotsdagar í skólanum

Það er sniðugt að brjóta upp venjulegar kennslustundir og skóladaga með útivist. Gott er að fá sér smá göngutúr og ferskt loft. Það getur verið gott að komast aðeins upp úr kennslubókunum og úr þessari venjulegu rútínu.

 

Í Giljaskóla er þetta stundum gert og finnst mörgum gott að breyta aðeins til. Giljaskóli hefur búið til smá rjóður í skóginum fyrir neðan skólann sem allir bekkir hafa hjálpast að við að gera. Oft fara krakkarnir sem eru í smíðum þangað og þar hefur ýmislegt verið smíðað t.d. brú, girðingar, borð og þá hafa verið gróðursettar kartöflur þar. Bekkirnir hafa svo farið saman og grillað brauð til gamans.

Þegar nemendur eru komnir á unglingastig er farið einu sinni á ári í fjallgöngu. Í ár var gengið upp að skíðahótelinu í Hlíðarfjalli með nesti í farangri. Þetta var skemmtileg ferð og gott að taka svona dag að hausti til og gaman að fá smá tilbreytingu. Það þarf samt ekki alltaf að fara heill dagur í svona. Það er líka hægt að fara út í fótbolta eða fá að lesa námsefnið úti.

Síðasta vetur tók skólinn upp vinaliðaverkefni. Þá eru krakkar sem stjórna leikjum úti í frímínútum og sjá til þess að enginn sé einn því þar eru allir velkomnir. Bekkjarfélagarnir kjósa vinaliðana og þú getur ekki verið valin(n) nema þú komir vel fram við aðra. Það getur því verið hvetjandi fyrir nemendur að sýna góð samskipti.

Loks má nefna útivistardaginn. Þá fer allur skólinn saman upp í fjall á skíði, bretti eða sleða. Það fara allir með nesti en það er oft mikil stemning að koma með kakó. Þessi dagur er góð leið til að kynna fjallið fyrir krökkunum og að gaman sé að fara þangað eftir skóla eða um helgar í staðinn fyrir að hanga í tölvunni. Auk þess sem það að fara á skíði eða bretti sé góð útivist og hreyfing.

 

Mér finnst gaman að brjóta upp skóladaginn stöku sinnum, Giljaskóli gerir sitt besta í því og kynna þannig nemendum mikilvægi samveru, útivistar, hreyfingar og vináttu.

 

Fríða Kristín Jónsdóttir 8. RK