Stólar og tölvur

Það er margt gott en einnig slæmt í Giljaskóla. Það sem ég ætla að tala um hérna fyrir neðan er það sem mér finnst að ætti að laga í Giljaskóla.

Stólarnir. Við erum sitjandi á þeim í um það bil 6 tíma á hverjum degi nema náttúrulega þegar við erum að gera eitthvað annað. Mér finnast stólarnir svo harðir og púðarnir sem eru á þeim eru alveg frekar slæmir. Það mætti alveg skipta um púða finnst mér. Þetta ætti að vera búið að laga fyrir krakka sem eru búnir að vera í Giljaskóla í 10 ár. Nú, eða bara kaupa nýja stóla? Það getur ekki verið heilsusamlegt fyrir okkur nemendur skólans sem erum öll að vaxa og þroskast að sitja á þessum óþægilegu stólum. Ég fæ alltaf illt í rassinn á að sitja og verð órólegur í tímum. Ég vil bara helst labba um og fara af stólnum. Ég held að allir í skólanum myndu læra betur í tímum og líða betur og gildir það um alla nemendur á öllum stigum.

Giljaskóli er búinn að fá frábærar tölvur. Eini gallinn er hvað það tekur langan tíma að skrá sig inn í tölvurnar og stundum getur það tekið allan tímann. Þetta getur ekki átt að vera svona og þarf að fá Svan tölvuumsjónarmann skólans eða annan tölvufræðing til þess að skoða þetta mál. Það myndi flýta fyrir nemendum að komast strax inn á svæðið sitt og byrja að vinna. Það yrði miklu betra fyrir okkur öll að koma þessu sem fyrst í lag. Þetta er ótrúlega pirrandi. Önnur hugmynd er að kaupa ipada fyrir hvert stig. Það er örugglega auðveldara að vinna með þá og þægilegra. Þeir eru minni og hægt að vinna allt á þá eins og á tölvur. Meira að segja nota alls konar forrit sem eru ekki í tölvum. Mér finnst að hver bekkur ætti að hafa aðgang að nokkrum slíkum tækjum.

Að lokum vil ég segja að við getum alltaf gert betur og það er jákvætt að við nemendur fáum hér tækifæri til að segja okkar skoðun. Ef við fengjum nýja stóla væri hægt að gera það í þrepum, ekki þarf að kaupa og endurnýja alla stóla í einu. Það sama má segja um tölvumálin, en einhvern tímann þarf að byrja þessa endurnýjun að mínu mati og er næsta haust tilvalinn tími til þess.

 

Atli Freyr Freysson   9. RK