Minningar úr Giljaskóla

Giljaskóli er minn fyrsti og eini grunnskóli. Þegar ég hugsa um hann þá koma upp í hugann minningar sem eru bæði vondar og góðar. Margar minningarnar eru skemmtilegar, meira að segja þær fyrstu.

Ein að fyrstu minningum mínum um skólann var þegar ég átti að velja fyrsta kennarann minn. Ef ég hefði valið hinn kennarann þá væri lífið mitt kannski töluvert öðru vísi. Ég man líka eftir fyrsta heimanáminu mínu. Í því átti ég að teikna mynd af sjálfum mér. Ég teiknaði risa stóran hring og gerði svo lítinn punkt inn í miðjan hringinn. Það skildi enginn myndina mína en fyrir mér var þetta augljóst, hringurinn var jörðin og punkturinn var ég.

Ég man eftir norræna skólahlaupinu og þá sérstaklega árið sem ég svindlaði. Ég hef sennilega verið á miðstigi. Við bekkjarbróðir minn vorum orðnir svo þreyttir á að hlaupa skólahringinn á hverju einasta ári svo við ákváðum að svindla þetta árið. Við ætluðum að stytta okkur leið þegar enginn sæi til. Þegar við vorum að fara út af  skólahringnum sá kennari til bekkjarbróður míns og stöðvaði hann en ég náði að fela mig á bak við hús. Þegar ég var að stytta mér leið sá ég kennara sem var ekki að hlaupa hringinn, heldur að labba eitthvert og hann horfði í áttina til mín. Mér brá og  varð mjög hræddur. Ég fór og faldi mig á bak við bíl. Eftir smá stund fattaði ég að kennarinn hafði ekki séð mig og hann var farinn. Það var erfitt að komast inn í hringinn aftur, án þess að einhver sæi mig. Á endanum fékk ég loksins tækifæri sem ég nýtti mér. Eftir þetta þá varð ég sannfærður um að það væri erfiðara að svindla en að hlaupa allan hringinn.

Ég er búinn að vera í níu og hálft ár í Giljaskóla og bráðum er kominn tími til að segja bless við skólann og fara í annan hvorn framhaldskólann á Akureyri. Ekki má ég gleyma góðu minningunum, merkilegu hlutunum sem ég lærði og öllum sem ég kynntist í skólanum. Þetta hafa verið ágæt ár.

 

 

Hinrik Guðjónsson 10.EJ