Lagað og bætt

Giljaskóli er frábær skóli og hverfið líka. Það er einhvern veginn allt svo auðvelt og þægilegt.  Það er samt alltaf hægt að gera betur. Að mínu mati mætti t.d. laga körfuboltavöllinn og gervigrasvöllinn.

Það eru holur á körfuboltavellinum og körfurnar mjög lélegar, farnar að síga og  það vantar net í sumar. Hægt er að bæta hann mikið, fylla upp í holur, setja ný net og fleira. Þá myndu kannski fleiri krakkar koma að leika sér þar.  Það er líka mjög slæmt fyrir vinaliðaleikina að vera á holóttum velli og svo er hann líka skakkur sem getur bæði verið hættulegt en líka bara óþægilegt.  Gervigrasvöllurinn við Giljaskóla var byggður 2008 og því er hann orðinn dálítið gamall.   Mér finnst að það mætti skipta um gras og gúmmí á honum en hvort tveggja er mjög illa farið. Búið er að nota völlinn mjög mikið, hrækja og pissa á hann og sprengja flugvelda á honum. Ef við myndum setja nýtt gras og gúmmí yrði völlurinn mun snyrtilegri. Ég veit að það breytir örugglega ekki því hvernig við förum með grasið. En mér finnst samt að það þurfi að skipta. Svo mætti hækka veggina öðrum megin því boltinn fer mjög oft út af. Þá mætti líka pússa timbrið því maður fær oft flís af því. Kannski gæti það verið verkefni fyrir nemendur í smíðum. Það sem mér finnst að mætti  bæta við Giljaskóla lóðina er skólahreystibraut norðan við íþróttahúsið. Væri það mjög skemmtilegt og yrði kannski til þess að við myndum bæta okkur í skólahreysti og  að unglingar myndu fara oftar út.  Skólahreystibrautin þyrfti ekki að vera eins og alvöru skólahreystibraut en hægt væri að setja svipuð tæki. Í fyrra var leikkastalinn endurnýjaður og það var mikill munur. Síðastliðið ár voru steinar undir gamla kastalanum og oft voru krakkar að kasta þeim í hvert annað. Steinarnir fóru út um alla skólalóðina, líka á steypuvöllinn sem var mjög óheppilegt. Gúmmí var sett undir nýja kastalann sem er miklu betra en að hafa steinana. Ég var glöð þegar þessu var breytt og ég held að flestir hafi verið það.

Mér finnst Giljaskóli frábær skóli og hverfið líka. Það væri frábært ef að mögulegt væri að bæta skólahreystibraut við skólalóðina og ef körfuboltavöllurinn og gervigrasvöllurinn yrðu lagfærðir.

Helga Viðarsdóttir 8. SKB