Kostir og gallar Giljaskóla

Giljaskóli er góður skóli þó svo að þar sé ýmislegt sem hægt er að bæta. Ég ætla aðeins að segja frá því hvað mér finnst gott við skólann og hvað má bæta.

Í Giljaskóla eru nokkrir gallar. Til dæmis í skólasundi er laugin svo köld. Þess vegna er kannski betra að byrja strax á því að synda og fá þá að fara í pottinn í lokin. Mér finnst einnig að tímarnir ættu að vera fjölbreyttari, ekki alltaf eins.
Tölvurnar eru  mjög hægar í Giljaskóla og stundum kemst maður ekki einu sinni inn í tölvuna svo það mætti endurnýja eða a.m.k. bæta þær. Einhverjir á unglingastigi eru að kvarta yfir of þungum töskum vegna þess að það eru engir skápar og er það eitthvað sem þarf að bæta.
Líkt og með sundið mætti brjóta upp fleiri fög með fjölbreyttum námsaðferðum. Það er m.a. fræðandi að hlusta á texta og horfa á myndir. Í dönsku horfum við á myndir á dönsku en það gerum við sjaldan í ensku. Það mætti laga.

Það  eru líka margir kostir við Giljaskóla. Dimmuborgir er einn þeirra en það er góður staður sem við getum eytt frítíma okkar á þegar við erum í eyðu eða þá í frímínútum. Þar er um margt skemmtilegt að velja, m.a. borðtennis og spil. Það er gaman í íþróttum því Einvarður hefur fjölbreytta íþróttakennslu og það er einnig gott að við þurfum ekki að fara í rútu.
Það er gott að geta fengið sér hafragraut ef maður gleymir nesti og sniðugt að hafa snúða og ostaslaufur á föstudögum til tilbreytingar. Það er sniðugt að hafa vinnustundir til að læra heimanám og vinna upp ef maður var til dæmis veikur og þá er líka kennarinn til að hjálpa manni.

Í lokin vil ég segja að það sem mér finnst mikilvægast að bæta í skólanum er að fá skápa og nýjar tölvur. Í Giljaskóla eru bæði kostir og gallar og líður mér mjög vel innan skólans. Það sem nemendur geta allir gert er að halda áfram að gera skólann betri.

Eyþór Daði Eyþórsson 8. BKÓ