Jólin nálgast - skipulag í des.

Ágætu foreldrar og forráðamenn.

Senn líður að aðventu og samkvæmt venju verður eitthvað um að hefðbundin kennsla sé brotin upp í desember í tengslum við hátíð ljóss og friðar. Reynt er að skapa notalegt andrúmsloft innan veggja skólans og búa þannig um hnútana að allir finni eitthvað við sitt hæfi.

Þrátt fyrir að ekki sé tónmenntakennari í  skólanum ætlum við samt að koma saman og syngja á svölunum.  Fyrsti svalasöngurinn verður fimmtudaginn 3. desember.  Sungið verður aftur dagana 3.,4., 8., 9., 15. og 17. desember.

Næstkomandi þriðjudag er 1. desember og verður hann haldinn hátíðlegur með samkomu á sal þar sem við rifjum upp fróðleiksmola varðandi atburði fullveldisdagsins  og afhendum þátttakendum í Grenndargralinu viðurkenningar. Við höfum einnig skapað þá venju að mæta  í sparifötunum í skólann þennan dag.

2. desember verður skreytingadagur hjá nemendum.  Nemendur  dunda  þá við eitthvert jólaföndur og skreyta stofuna sína fyrir aðventuna.

3. des. Þá hefur 2.-4. bekk verið boðið á leiksýninguna Grýlu  í Samkomuhúsinu   kl. 9.30.( Sýningin tekur um 30.mín. ) Foreldrar eru velkomnir að koma líka.
Þess má geta að nemendur og starfsfólk nota strætisvagnana.

14. desember mun 6. bekkur sýna helgileik að venju á sal. Sýnt verður fyrir
1. – 7. bekk. Ef foreldrar vilja koma og horfa þá er sýning hjá 6.ÁEK kl. 9 og hjá 6.KMÞ kl. 10:10. Áætlaður sýningartími er um 15 mín.

Vinabekkjadagar eru áætlaðir á aðventunni en þá eiga vinabekkir notalega stund saman með kakó og smákökur.

Á bókasafninu er boðið uppá sannkallaða aðventustund.  Ingunn les úr nýjum jólabókum og býður upp á piparkökur.

Litlu jólin eru á dagskrá 18. des. Nemendur mæti í stofur kl.8.30 og eiga fyrst  notalega stund saman með kennurum sínum, síðan er farið í íþróttasalinn og gengið þar í kringum jólatréð.  Upp úr kl. 10.15 ættu nemendur að ganga út í jólafrí.  Nemendur mæta  svo aftur í skólann á  venjulegum tíma eftir jólafrí þriðjudaginn 5. janúar.

Sú ákvörðun hefur verið tekin að vera ekki með jólakort milli nemenda en við höldum í þann sið að skiptast á litlum jólagjöfum sem kosta um 500 kr.

Starfsmenn gefa andvirði sinnar jólagjafar til mæðrastyrksnefndar og hefur skólinn bætt við þá upphæð því sem kostað var áður til jólakorta sem send voru.  Ef foreldrar/nemendur vilja styðja mæðrastyrksnefnd með smáframlagi getum við komið því til skila.   Með von um að aðventan verði tími ljóss og friðar bæði hér í skólanum og hjá okkur öllum.

Gleðilega aðventu.

Starfsfólk Giljaskóla