Heimanám í grunnskólum

Heimanám er í hverjum einasta skóla á Íslandi að ég held. Ég hef verið að velta því fyrir mér af hverju við nemendur höfum vinnuna með okkur heim á daginn þegar skóladegi lýkur?

Við erum í skólanum frá átta á morgnana og erum í honum stundum alveg til fjögur á daginn. Það eru fjórir til átta klukkutímar á dag. Þegar við komumst svo loks heim tekur kannski klukkutíma langt heimanám við. Eftir það eigum við eftir að fara á æfingar, vera með vinum, fara í tölvuna og vinna hin ýmsu heimilisstörf. Margir unglingar eru farnir að vinna á daginn og svo þarf auðvitað að reikna með tíma með fjölskyldunni.

Ég stórefa að allir kennarar taki vinnuna sína með sér heim. Ég er alls ekki að segja að þeir séu ekki til. Vissulega eru einhverjir kennarar sem gera það. Mér finnst einfaldlega eðlilegt að ef nemendur fá heimanám með sér heim vikulega þá ættu kennarar líka að taka vinnuna með sér heim. Ég skil vel að þeir setji á okkur heimanám ef við klárum ekki vinnuáætlunina þeirra í tímanum. Á móti verða þeir þá að gera raunhæfa áætlun fyrir okkur sem felur í sér möguleika á að klára verkefnið á þessum 40 til 80 mínútum sem við erum hjá þeim á dag. Ekki svo að skilja að kennarar geri oft óraunhæfar kröfur til okkar sem við bara getum ekki uppfyllt í tímanum. En það getur komið fyrir og þá endar það með því að við þurfum að vinna verkið heima.

Á mörgum heimilum fá börnin ekki þá hjálp sem þau þurfa sökum þess að foreldrar eða forráðamenn eru ekki heima, t.d. vegna vinnu. Þá skilja foreldrar ekki alltaf sjálfir námsefnið og eru því ekki í aðstöðu til að aðstoða börnin. Námsefnið er nefnilega allt öðruvísi í dag en það var fyrir 20 eða 30 árum. Það er líka oft þannig að ef þú getur ekki eitt dæmi þá getur þú ekki gert neitt í öllum kaflanum nema fá aðstoð við fyrsta dæmið. Barnið fær þá skráða á sig óunna heimavinnu því það gat ekki fengið neina aðstoð heima!

Ef nemendur eiga að fá heimanám með sér heim eftir langan skóladag finnst mér að kennarar ættu alla vega að taka eitthvað af vinnunni sinni með sér heim líka. Ég skil  samt fullvel að kennarar skuli setja á okkur heimavinnu ef við erum ekki nógu dugleg í tímum hjá þeim. Á móti geri ég þá lágmarkskröfu að raunhæft sé að klára verkefnin sem lögð eru fyrir í kennslustund. Ef það næst ekki og heimavinna dæmist á nemendur verður þeim að standa til boða aðstoð heima fyrir. Annars geta nemendur ekki unnið heimavinnuna og fá þá óunna heimavinnu í kladdann. Niðurstaða mín er því sú að það eigi að minnka heimanám eins mikið og hægt er. Þá geta unglingar einbeitt sér að öðrum hlutum líka á daginn en bara skólanum.

Ásdís Inga Viktorsdóttir 10.BKÓ