Frjáls mæting í skólann

Giljaskóli er afar metnaðarfullt samfélag sem vill ávallt auka reynslu sína og þekkingu. Giljaskóli vill einnig ávallt leggja sitt af mörkum um bætingu og prófa nýja hluti. Svo að dæmi sé nefnt þá eiga íslenskukennarar á unglingastigi stórt hrós skilið fyrir að hvetja nemendur til þess að láta skoðanir sínar í ljós á opinberum vettvangi. Einnig má nefna málstofuverkefni, kvikmyndadaga, uppbrotsdaga, ræðukeppnir og önnur tjáningarverkefni. Það var gerð tilraun fyrir þó nokkrum dögum síðan þar sem um var að ræða frjálsa mætingu í skólann á föstudegi. Ég tel þessa hugmynd skólans afar jákvæða og áhugaverða.  Hvers vegna? Námsmatið hjá okkur nemendum hér í Giljaskóla er byggt á ákveðnum grunnþáttum. Ég ætla að ræða um tvo af þessum þáttum. Þeir eru ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Með frjálsri mætingu eru nemendur að læra að axla ábyrgð á eigin námi.  Við þurfum að læra að bera ábyrgð á eigin menntun því við, og enginn annar, berum ábyrgð á hversu góðu lífi við lifum. Við stjórnum algerlega hvernig okkar hugarfar er og hvernig viðhorf við höfum á okkar námi og umfram allt hvernig viðhorf við höfum á okkar lífi. Hvernig manneskja vilt þú vera? Viltu standa þig vel í námi með því að mæta í skólann með jákvæðu viðhorfi og leggja þig allan fram til þess að bæta þig þó að það sé  frjáls mæting? Eða viltu fremur sleppa auðveldlega frá hlutunum og svindla á sjálfum þér með því að mæta ekki?

Ég tel einnig að með frjálsri mætingu séu nemendur að þjálfa upp sjálfstæð vinnubrögð. Ég tel mjög mikilvægt að maður læri að vera sjálfstæður. Ég tel það stóran hluta af lífinu að læra að standa með sjálfum sér og taka ábyrgð á eigin gjörðum og lífi. Brátt lýkur skólanámi og þú þarft að takast á við heiminn.

Ef frjáls mæting gengur ekki upp í grunnskólum, mætti þá ekki hafa daga þar sem nemandi velur sér fag og vinnur sjálfstætt í því sem hann þarf að leggja meiri áherslu á?

Birta María Aðalsteinsdóttir 10. IDS.